Bandaríska fréttastofan Bloomberg skrifar í dag um mótmælin að undanförnu á Íslandi og segir að ekki þurfi mikið til að upp úr sjóði. Segir í fréttinni að efnahagshrunið á Íslandi geti haft víðtæk áhrif þar sem atvinnuleysi eykst og sífellt fleiri geta ekki greitt skuldir sínar. Búast megi við því að alda mótmæla ríði yfir heimsbyggðina og stjórnmálamenn verði fyrir þrýstingi. Er fjallað um mótmælin í Grikklandi og víðar í heiminum í sömu frétt.
Bloomberg fjallar um Evu Hauksdóttur og baráttu hennar, sem þeir segja stýra mótmælunum á sama tíma og hún reki Nornabúðina. Þar selji hún hún verndargripi og galdradúkkur í líki bankamanna. Eva segir í viðtali við Bloomberg að hún geri ráð fyrir því að missa heimili sitt sem sé minna virði heldur en þegar hún keypti það fyrir tveimur árum.
Hálfkarað Tónlistarhús er sagt táknmynd góðærisins á Íslandi og að til marks um nýja tíma hafi gestastofu þess verið lokað í kjölfar falls Landsbankans.
Þórhallur Vilhjálmsson, markaðsfræðingur, líkir Íslandi við eftirköst Chernobyl slyssins. „Ísland er i dag eins og Chernobyl eftir sprenginguna," segir Þórhallur og bætir við „allt lítur eðlilega út en það er geislun í gangi."
Versta kjarnorkuslys sögunnar varð í kjarnorkuverinu í Chernobyl þegar sprenging varð þar árið 1986. Að minnsta kosti átta þúsund manns létust í sprengingunni og eftirköstum hennar.