Það var nokkuð kunnugleg lykt, sem barst að íslenskum nefjum á Ensku ströndinni svonefndu á Kanaríeyjum í kvöld, Þorláksmessukvöld. Ekki fór á milli mála, að verið var að sjóða kæsta skötu og Íslendingar gengu margir á lyktina en aðrir forðuðu sér.
Upptök lyktarinnar voru á veitingastaðnum Cosmos, sem aldrei er kallaður annað en Klörubar en þar ræður Klara Baldursdóttir ríkjum. Klara segist hafa soðið Þorláksmessuskötu fyrir Íslendinga á Ensku ströndinni í hálfan annan áratug og flytur hana að sjálfsögðu inn frá Íslandi.
Hún segist stundum hafa fengið nærri 300 manns í mat þetta kvöld. Í ár er hins vegar ekki eins mikið að gera enda eru mun færri Íslendingar á Kanaríeyjum yfir jólin en venjulega og raunar færri ferðalangar frá flestum öðrum löndum. Þó urðu gestirnir í kvöld um 220 áður en yfir lauk.