Staða mála í efnahagsbrotadeild ríkislögreglustjóra er betri en hún hefur nokkru sinni verið. Í frétt á vef ríkislögreglustjóra segir að afköst deildarinnar hafi aukist og það markmið sem deildin hafi sett sér til að stytta þann tíma sem líður frá því að kæra berst þar til rannsókn hefst, hafi gengið eftir. Nú bíða 18 mál til rannsóknar hjá deildinni og er elsta málið frá því í lok október sl. en önnur eru frá því í nóvember og desember.
Ríkislögreglustjóri sá ástæðu til að koma upplýsingum um efnahagsbrotadeildina á framfæri vegna umfjöllunar um deildina að undanförnu.
Í fréttinni segir m.a. að starfsmenn deildarinnar séu jafnmargir nú og árið 2004 eða 14,1 stöðugildi. Lögfræðingum í efnahagsbrotadeild hefur fjölgað á undanförnum árum og eru nú fimm talsins. Einn löglærður fulltrúi lætur af störfum í árslok en hann var ekki fastráðinn.
Fjölgun ákæra og staða við rannsókn mála
Í byrjun árs 2007 voru gerðar skipulags- og stjórnunarbreytingar hjá efnahagsbrotadeild. Helmingur starfsmanna sem nú eru í deildinni hóf störf á þessum tíma. Í frétt RLS segir að nokkurn tíma hafi tekið að manna lausar stöður, enda sé leitast við að vanda val starfsmanna til þeirra sérhæfðu og oft flóknu starfa sem deildin sinnir. Nokkur stöðugildi voru ómönnuð af þessari ástæðu um lengri eða skemmri tíma. Í fréttinni segir að þrátt fyrir þetta hafi á þessu ári komist á stöðugleiki, starfsandi í deildinni sé góður og framleiðni hafi aukist. „Er það samdóma álit yfirmanna deildarinnar að mjög vel hafi tekist til við val á nýjum starfsmönnum og að deildin sé nú vel mönnuð,“ segir í frétt RLS.
Samkvæmt málaskrá hefur efnahagsbrotadeild borist 117 kærur það sem af er árinu 2008. Af þeim hefur 99 málum verið úthlutað til rannsóknar sem er töluverð aukning frá fyrra ári.
Mörg þessara mála eru þess eðlis að fleiri en einn starfsmaður koma að rannsókninni. Almenn þróun virðist vera í þá átt að málin sem kærð eru til efnahagsbrotadeildar eru mörg hver umfangsmeiri en áður, teygja anga sína til annarra landa og þau varða meiri fjárhagslega hagsmuni.
Sama er að segja um ákærur það sem af er árinu, en þær voru 42 í 45 málum og hafa ekki verið fleiri í sögu deildarinnar, fyrir utan árið 2004 er ákærur voru 46 talsins.
Ákæra innan tveggja ára
Í löggæsluáætlun ríkislögreglustjóra vegna ársins 2008 eru efnahagsbrotadeild sett þau markmið að ljúka rannsókn og gefa út ákæru í öllum málum, nema þeim allra stærstu, innan tveggja ára frá því að kæra berst og að hefja skuli rannsókn þeirra innan sex mánaða. Við þessa ákvörðun var tekið mið af málshraða á liðnum árum. „Í lok árs 2008 liggur fyrir að markmiðum þessum hefur að mestu verið náð. Búið er að gefa út ákærur í öllum málum eldri en tveggja ára nema einu sem er enn til rannsóknar. Þá eru tvö umfangsmikil og eldri skattsvikamál nú til meðferðar hjá dómstólum. Flest þeirra mála sem sætt hafa ákæru á árinu 2008 lauk vel innan árs frá því að kæra barst. Málum er forgangsraðað og hafa allar kærur í umfangsmiklum sakamálum verið settar í rannsókn án tafar,“ segir í frétt RLS.
Frekari efling efnahagsbrotarannsókna
Með nýju embætti sérstaks saksóknara sem sett hefur verið á stofn til að rannsaka grun um refsiverða háttsemi í aðdraganda og í tengslum við þá atburði er leiddu til setningar laga um heimild til fjárveitingar úr ríkissjóði vegna sérstakra aðstæðna á fjármálamarkaði er gert ráð fyrir því að rannsóknar- og ákæruheimildir hins sérstaka saksóknara taki meðal annars til efnahags-, auðgunar- og skattabrota. Samhliða hinu nýja embætti mun efnahagsbrotadeild ríkislögreglustjóra annast þau mál sem deildinni eru ætluð. Þannig hafa rannsóknir og saksókn í þessum málaflokki verið stórefld, að sögn RLS.