Talsvert um innbrot og þjófnaði

Talsvert hefur verið um innbrot og þjófnaði á höfuðborgarsvæðinu í dag að sögn lögreglu. Frá því kl. 7 í morgun hafa 32 slík mál verið tilkynnt til lögreglu. Brotist er inn í bíla og vörum hnuplað úr verslunum. Varðstjóri segir meira um slíkar tilkynningar nú samanborið við undanfarin ár. Þá er fjölmennt í miðborg Reykjavíkur í kvöld.

Varðstjóri segir margar tilkynningar um búðarhnupl, m.a. úr verslunarmiðstöðvunum, hafa borist og í einhverjum tilvika hafi lögreglunni tekist að hafa hendur í hári þjófanna og þá hefur vörunum þá verið skilað.

Að sögn lögreglu er bæði um Íslendinga og útlendinga að ræða. Margir bera við peningaleysi þegar þeir eru krafðir um skýringar á athæfinu.

Fólk hefur m.a. verið staðið að því að stela áfengi úr áfengisverslunum eða mat úr stórmörkuðum.

Lögreglan reynir að ganga frá málum á staðnum, og hefur þeim sem hafa verið teknir verið sleppt að lokinni skýrslutöku.

Þá hefur einnig verið brotist inn í fjölda bíla víðsvegar á höfuðborgarsvæðinu í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka