Jólin voru hringd inn klukkan 18 í kvöld í kirkjum landsins og sóttu margir aftansöng en víða eru einnig miðnæturmessur síðar í kvöld. Sr. Jón Helgi Þórarinsson, sóknarprestur í Langholtskirkju, segir að þrátt fyrir að aðstæður breytist þá breytist boðskapurinn um návist Guðs ekki.
Fréttavefur Morgunblaðsins óskar landsmönnum nær og fjær gleðlegra jóla.
„Heilög jólahátíð er gengin í garð. Sem barn beið ég, eins og önnur börn fyrr og síðar, óþreyjufullur eftir því að þessi stund rynni upp, jólin sjálf, með ljósum sínum, skarti og skrúða og leyndardómsfullum gjöfum. Aftansöngurinn á aðfangadagskvöld varðaði veginn inn í hátíðina, hvar jólaguðspjallið var lesið og hátíðlegir sálmarnir hljómuðu um hinn nýfædda konung, um Drottin Guð sem er nálægur mér og þér, vitjar okkar í Jesú Kristi.
Ó, Jesúbarn, þú kemur nú í nótt,
og nálægð þína ég í hjarta finn.
Þú kemur enn, þú kemur undrahljótt,
í kotin jafnt og hallir fer þú inn.
Jakob Jóh. Smári orti svo er hann opnum huga tók á móti gjöf Guðs sem okkur öllum er færð, þeim friði og fögnuði sem Guð gefur okkur í boðskap heilagra jóla. Það sem skáldið talar hér um skynjaði ég sem barn við aftansönginn og hefi síðan reynt með ýmsu móti við helga stund þessa undursamlegu nótt. Það hefur verið mér ómetanlegt að hafa fengið sem barn að hlusta á boðskapinn og taka undir lofsönginn, vera þátttakandi í þeirri stund sem gefur hinu heilaga tíma, verið leiddur að jötu lausnarans.
Aðstæður okkar manna breytast stöðugt, en boðskapurinn um návist Guðs breytist ekki. Guð er hinn sami frá eilífð til eilífðar. Hann „helgar mannlegt allt“, allar aðstæður okkar, líf og líðan, gleði sem sorgir. Jesús boðaði okkur þetta með orðum sínum og verkum, er hann með mætti kærleika sins huggaði og endurreisti, gaf fólki von og trú og kærleika, stóð vörð um mikilvægi sérhverrar manneskju, barðist fyrir réttlæti og friði.
Þú kemur enn til þjáðra í heimi hér
með huggun kærleiks þíns og æðsta von.
Í gluggaleysið geisla inn þú ber,
því guðdómsljóminn skín um mannsins son.
Jólahátíðin kunngjörir að ljós Guðs skín til okkar. Okkur er það fært að það megi lýsa upp líf okkar, vísa okkur hinn góða veg. Gefum því sem heilagt er rými og tíma á þessari hátíð með stund kyrrðar og bænagjörðar, að við mættum skynja og taka á móti fagnaðartíðindunum um Orð Guðs sem býr meðal okkar, um ljós lífsins sem okkur er gefið.
„Þessu veldur hjartans miskunn Guðs vors. Hún lætur upp renna sól af hæðum að vitja vor og lýsa þeim sem sitja í myrkri og skugga dauðans og beina fótum vorum á friðar veg.“ (Lúk 1. 78 – 79)
Guð gefi þér gleðileg jól."