Sjö námsmenn í neyð

Alls fengu sjö námsmenn samþykkta umsókn sína um neyðarlán á fundi stjórnar Lánasjóðs íslenskra námsmanna (LÍN) í gær. Fyrir stjórnarfundinum lágu 115 umsóknir og var 95 þeirra hafnað. 13 bíða þess hins vegar að frekari gögn berist sjóðnum.

Ástæður fyrir samþykki þeirra umsókna sem voru afgreiddar eru, að sögn Ástu Þórarinsdóttur, setts framkvæmdastjóra LÍN, m.a. að meðlags- eða fæðingarorlofsgreiðslur frá Íslandi höfðu rýrnað verulega vegna gengisfalls krónunnar, og umtalsverðar tafir á millifærslu gjaldeyris milli landa og til lánþega í fjarnámi eða skiptinámi erlendis, sem ekki féllu undir breytingar á úthlutunarreglum sem lutu að því að koma til móts við skiptinema.

Neyðarlánin ná hins vegar ekki yfir þá skerðingu sem gengisfall krónunnar hefur valdið námsmönnum. Lánin frá LÍN eru veitt í mynt hvers námslands og fá námsmenn lánin greidd miðað við gengi á útborgunardegi. Íslensk yfirdráttarlán, sem margir námsmenn erlendis taka á meðan beðið er úthlutunar, hafa þó að sjálfsögðu rýrnað með gengi krónunnar. Neyðarlánin gilda þó ekki fyrir þau tilfelli, heldur hafa bankar fengið tilmæli um að endurskoða námsáætlanir og hækka yfirdráttarlán í samræmi við þá endurskoðun.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert