Margir vilja liðsinna

Herrra Karl Sigurbjörnsson.
Herrra Karl Sigurbjörnsson. mbl.is

Biskup Íslands, herra Karl Sigurbjörnsson, minnti í hugvekju sinni á Trú.is í gær á það hve margir þyrftu nú á aðstoð að halda vegna kreppunnar. En jafnframt að það yki bjartsýni að sjá hve margir vildu liðsinna þeim sem væru þurfandi. Biskupinn predikaði í gærkvöld í Bústaðakirkju.

,,Ég kom á dögunum í Borgartún í Reykjavík þar sem jólaúthlutun Hjálparstarfs kirkjunnar, Mæðrastyrksnefndar og Rauða kross Íslands stóð yfir" sagði Karl í hugvekjunni. ,,Fjöldi sjálfboðaliða var þar á þönum við að fylla á poka og aðstoða fólk sem þurfti á aðstoð að halda fyrir þessi jól. Hjálparumsóknir frá 2300 fjölskyldum höfðu þá borist, fleiri en nokkru sinni og enn var að bætast við.

Það var í senn dapurlegt og ánægjulegt að verða vitni að þessu. Og það gaf von. Dapurlegt er að vita af öllum þeim fjölda fólks sem neyðist til að leita sér hjálpar. Ekki síst að sjá unga foreldra með lítil börn, og skynja þá neyð sem að baki býr. En gleðilegt að vita til að hægt er að koma til móts við þá neyð vegna svo ótrúlegrar velvildar og örlætis einstaklinga og fyrirtækja.

Sjálfboðaliðarnir eru úr ýmsum áttum og á ýmsum aldri, unglingar úr æskulýðsstarfi kirkjunnar þar á meðal, og starfsfólk Símans og Straums sem fékk frí til að taka þátt í úthlutuninni. Það var mikið að gera, ys og erill, en ánægja og þakklæti í ásjónum fólksins. Jólagleði er gleði gjafmildinnar, umhyggjunnar, kærleikans, sem lýkur upp hliðum vonarinnar um tíð og tíma þar sem þeir þættir fá að ráða í mannlífinu."

Biskup sagði m.a. í predikun sinni í gærkvöld að sjaldan hefði jólaguðspjallið verið áleitnara og rómsterkara en einmitt núna. ,,Á óvissutímum og kvíða þurfum við virkilega að heyra og skynja og þiggja hin raunverulegu verðmæti og endurheimta hinn sanna auð, sem Guð býður okkur sem gjöf."

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert