Persónuvernd hefur í þriðja sinn hafnað beiðni fyrirtækisins Lánstrausts um að mega safna og miðla persónuupplýsingum um greiðsluhegðun einstaklinga. Úrskurður þessa efnis féll skömmu fyrir jól.
Beiðni Lánstrausts var fyrst hafnað fyrir ári síðan, og aftur á miðju þessu ári. Upplýsingar sem fyrirtækið vill afla er m.a. um kröfur á hendur einstaklingum, um gjalddaga, eindaga og greiðsludag. Unnið sé með þær til að reikna út meðalgreiðslutíma hjá hverjum einstaklingi, og selja aðgang að niðurstöðunum.
Í úrskurði Persónuverndar segir m.a. að um sé að ræða mjög umfangsmikla vinnslu persónuupplýsinga sem færi fram án samþykkis og vitundar hinna skráðu. Lánstrausti og Persónuvernd greinir á um hvort vinnslan eigi sér stoð í lögum um persónuvernd. Að mati Persónuverndar leiða rök Lánstrausts ekki til þeirrar niðurstöðu að vinnsla upplýsinga um greiðsluhegðun einstaklinga, sem standa í skilum með greiðslur, teljist nauðsynleg til að Lánstraust eða þriðji aðili, eða aðili sem upplýsingunum yrði miðlað til, geti gætt lögmætra hagsmuna sinna.