Efnt verður til þögulla mótmæla á Akureyri á morgun, laugardag, kl. 15. Er þetta níunda slíka samkoman þar í bæ, sem aðstandendur kalla lýðræðisgönguna. Hefst hún kl. 15 og að venju gengið frá Samkomuhúsinu á Akureyri og niður á Ráðhústorg.
,,Á Ráðhústorgi munum við taka höndum saman, mynda hring og hugleiða í 10 mínútur um frið og samkennd," segir Guðrún Þórsdóttir, aðstandandi mótmælanna.
Borgarafundur 12. janúar
Aðstandendur borgarafundanna í Reykjavík verða með opið hús í miðstöðinni að Borgartúni 3 kl. 16 á morgun. Á mánudagskvöld verður síðan undirbúnings- og umræðufundur um komandi borgarafundi, en ákveðið hefur verið að halda opinn fund í Háskólabíói mánudaginn 12. janúar nk. kl 20, að því er fram kemur á vefsíðunni borgarafundur.org