Rúmlega þúsund mótmælendur komu saman til mótmæla á Austurvelli í dag, að sögn Harðar Torfasonar, talsmanns samtakanna Radda fólksins sem skipuleggja mótmælin. Þetta er tólfti laugardagurinn í röð sem mótmælt er á Austurvelli.
Að sögn Harðar mátti búast við því að hópurinn yrði ekki fjölmennari nú, enda hópurinn tvístraður vegna hátíðarhalda yfir jól og áramót. „En þetta heppnaðist mjög vel, það var góður andi á fundinum og allt fór mjög friðsamlega fram. Ég stend alveg fyrir því að þetta eru friðsamleg og málefnaleg mótmæli.“
Auk Harðar tóku til máls á fundinum Ragnhildur Sigurðardóttir og Björn Þorsteinsson.
Hörður á von á því að kraftur færist á ný í mótmælin eftir áramót en þau verða næst laugardaginn 3. janúar. „Það kemur gusa núna strax í janúar þegar hópur fólks missir vinnuna, og svo aftur í febrúar og þá koma jólareikningarnir ofan á. Þetta er nú einu sinni staðreynd með manneskjuna að þegar buddan tæmist, verður hún grimmari. Þetta helst allt í hendur.“
Lögregla telur mótmælendur hafa verið heldur færri en skipuleggjendur, eða um 400 - 500.