Laun ráðherra og þingmanna lækka

Laun ráðherra og þingmanna verða lækkuð.
Laun ráðherra og þingmanna verða lækkuð. Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Mánaðarlaun forsætisráðherra að meðtöldu þingfararkaupi lækka um tæplega 15% frá og með áramótum og verða 935 þúsund samkvæmt úrskurði Kjararáðs í morgun. Laun annarra ráðherra lækka um tæplega 14% frá sama tíma og verða og verða 855 þúsund kr. Þá lækkar þingfararkaup um áramótin um tæp 7,5% og verður 520 þúsund kr. á mánuði.

Alþingi samþykkti breytingu á lögum um Kjararáð 20. desember þar sem Kjararáði var gert að kveða upp  nýjan úrskurð um laun ráðherra og þingmanna fyrir áramót, sem feli í sér 5-15% launalækkun alþingismanna og ráðherra. Er ráðinu óheimilt að endurskoða þann úrskurð til hækkunar til ársloka 2009.

Í greinargerð Kjararáðs með úrskurðinum í morgun segir að í lögunum sem Alþingi samþykkti fyrir jól segi að þrátt fyrir ákvæði 8. og 10. gr. laga um kjararáð skuli ráðið lækka laun alþingismanna og ráðherra um 5-15%. „Löggjafinn markar því með lögunum stefnu um launaþróun ríkisstarfsmanna til næstu framtíðar í stað þess að

kjararáð taki í ákvörðunum sínum mið af breytingum sem hafa orðið. Samkvæmt athugasemdum með frumvarpi sem varð að lögum nr. 148/2008 er kjararáði ætlað svigrúm til þess að útfæra lækkunina.“

Þá bendir ráðið á að staðfestar upplýsingar um launalækkanir séu takmarkaðar enn sem komið er, „en fréttir úr mismunandi áttum benda til þess, að lækkun tiltölulega hárra launa sé þegar hafin. Virðist ekki óvarlegt að ætla að staðfestrar tilhneigingar gæti nú þegar um lækkanir launa a.m.k. á bilinu 5-15 af hundraði hjá þeim sem hafa 450.000 krónur eða meira í mánaðarlaun, þótt það sé ekki enn komið fram í launavísitölum nema að litlu leyti. Þá hefur ekki verið samið um lækkun launa ríkisstarfsmanna.

Kjararáð telur rétt, með hliðsjón af því sem áður segir, að mánaðarlaun forsætisráðherra verði 935.000 krónur eða lækki um tæplega 15%, mánaðarlaun annarra ráðherra verði 855.000 krónur eða lækki um tæplega 14%, hvort tveggja að meðtöldu þingfararkaupi, sem verði 520.000 krónur á mánuði eða lækki um tæp 7,5 %,“ segir í úrskurðinum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka