Vanhugsaðar tillögur um hreindýr

mbl.is/Steinunn Ásmundsdóttir

Dýraverndarsamband Íslands varar eindregið við áformum  um að sleppa hjörð villtra hreindýra í Reykjanesfólkvang enda samræmist slíkt ekki dýravelferðarsjónarmiðum. Ferðamálasamtök Suðurnesja vörpuðu fram slíkri hugmynd á dögunum.

Reykjanesskaginn hefur ekki uppá að bjóða kjörlendi fyrir hreindýr, að mati Dýraverndarsambandsins, hvorki hvað beitilönd varðar né loftslagsskilyrði þar sem þetta er eitt votviðrasamasta svæði landsins. „Gera má ráð fyrir að hreindýrin myndu leita niður á láglendi, a.m.k. hluta árs, svo sem í skóglendi, allt til Heiðmerkur, og niður að sjó, þar með yfir hina fjölförnu Reykjanesbraut, og lenda í mikilli slysahættu. Þau gætu reyndar farið víðar hindrunarlaust og með þeim þyrfti því að vera stöðugt eftirlit sem viðkomandi sveitarfélög þyrftu sennilega að kosta,“ segir í fréttatilkynningu frá Dýraverndarsambandinu.

Þar segir ennfremur: „Auk þess þyrfti að gera ráð fyrir fóðrun í harðindum og ráðstafanir yrði að gera til þess að dýrin yrðu ekki sjálf fyrir slysum á vegunum eða gætu valdið slysum á fólki við ákeyrslur. Ýmis önnur sjónarmið varða framangreinda tillögu en við teljum að velferð dýranna skipti megin máli og teljum fráleitt að hún verði tryggð á Reykjanesskaga né annars staðar í Landnámi Ingólfs Arnarsonar.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka