Hallað á konur í netmiðlum

Konur eru umfjöllunarefni í aðeins tæpum fjórðungi frétta á vefmiðlunum Mbl.is og Vísir.is. Þær birtast oftast í hlutverki dægurstjarna í efnisflokknum slúður en karlmenn birtast oftast sem íþróttamenn.

Kynjahlutfallið á mbl.is er jafnara en á vísir.is, eða 28% samanborið við 18%. Þetta eru niðurstöður rannsóknar sem Kristín Ása Einarsdóttir gerði fyrir B.A.-ritgerð sína í félagsfræði við Háskóla Íslands. Kristín Ása starfaði sjálf við fjölmiðla í rúm 11 ár og virtist henni sem kynjahlutfallið á vefmiðlunum væri heldur skakkt. „Ég varð forvitin að vita hvort það væri rétt hjá mér,“ segir hún.

Kristín Ása segir að sér hafi komið mest á óvart hve margar fréttir fjölluðu um einkalíf fræga fólksins. Umfjöllun um starf leikara og söngvara fór í menningarflokk en væri fjallað um þeirra líf utan starfsins, hvað stjörnurnar aðhefðust í sínu daglega lífi, fór það í slúðurdálk. „Það kom mér á óvart hve margar greinar voru hreint og klárt slúður,“ segir Kristín Ása en eins og fyrr segir var hæsta hlutfall kvenna einmitt í þeim flokki, eða 22,5%. Þegar slúðurflokkurinn var tekinn út datt hlutfallið niður í 14%. „Slúðurumfjöllun á mbl.is og vísir.is hífði hlutfall kvenna upp,“ segir Kristín Ása.

Hæsta hlutfall karla mátti finna í flokkunum íþróttir, viðskipti og efnahagsmál, og innlend stjórnmál. Hæsta hlutfall kvenna var í flokkunum slúður, skemmtiefni og afþreying, og íþróttir. Kristín Ása segir athyglisvert að flokkarnir viðskipti og innlend stjórnmál hafi ekki verið meðal fimm efstu flokkanna hjá konum. „Það vakti athygli mína hve lítið er leitað til kvenna varðandi þess lags fréttir. Fréttamiðlarnir endurspegla ekki hlutfallið á vinnumarkaði og í stjórnmálum,“ segir hún. „Til dæmis er hlutfall stjórnmálakvenna sem rætt er við langt undir hlutfalli kvenna sem eru á alþingi og gegna ráðherraembættum.“

Kristín Ása safnaði fréttum af mbl.is og vísir.is allan maímánuð 2008. Útgangspunkturinn voru allar myndskreyttar fréttir. Hún greindi einnig myndirnar sem fylgdu með og segir þær almennt hafa komið vel út. Hærra hlutfall kvenna en karla var fáklætt á myndum en yfirleitt voru flestir fullklæddir. Á fréttamyndunum voru 8,8% kvenna fáklæddar en aðeins 1,5% karla. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert