Íslendingar taka við formennsku í Norrænu ráðherranefndinni

Fellibylur færður inn á sjókort fyrir sæfarendur.
Fellibylur færður inn á sjókort fyrir sæfarendur. National Hurricane Center

Íslendingar taka við formennsku í Norrænu ráðherranefndinni um áramót.  Eitt af meginstefnumiðum Íslendinga á formennskutímanum er að efla samstarf um verndun Norður-Atlantshafsins og um málefni Norðurskautsins.

Liður í því er að hrinda úr vör gerð vákorts fyrir Norður-Atlantshafið sem á að vera grundvöllur fyrir samræmdar aðgerðir, komi til umhverfisslyss.  

Upplýsingum um náttúrufar og viðkvæm vistkerfi, sem gætu verið í hættu, verður safnað saman í gagnagrunn með hafkortum, áhættumati og viðbragðsáætlunum á hafsvæðunum milli Noregs og Færeyja og Íslands og Grænlands.

Tilgangurinn með gerð kortsins er að bregðast við auknum umsvifum og siglingum í norðurhöfum, m.a. vegna aukinnar ásóknar í auðlindir á heimskautasvæðunum. Gert er ráð fyrir að vákortið verði tilbúið í lok árs 2010.

Aðaláherslan í formennskuáætlun Íslendinga er að stórefla samstarf um rannsóknir og nýsköpun, ekki síst á sviði loftslags-, orku- og umhverfismála. Stefnt er að því að styrkja samstarf og verkaskiptingu Norðurskautsráðsins og ráðherranefndarinnar og leitað verður eftir samstarfi við granna í vestri og suðri, þ.e. Kanada, Skotland og Írland, um nýsköpun á sviði loftslagsmála.

Efnt verður til á þriðja tug viðburða á Íslandi formennskuárinu og jafnframt munu hinar ýmsu ráðherra- og embættismannanefndir funda hér á landi.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka