Stór grínteikning, þar sem þekkja má kviknakinn Geir Haarde forsætisráðherra í forgrunni, birtist á vef norska dagblaðsins Aftenbladet um helgina. Yfirskriftin er „Sagan um Íslendingana og stóra peningaspilið" og fylgir með frásögn í fornsögustíl, um sögu Íslendinga, allt frá því Eiríkur Rauði flúði til Íslands frá Noregi.
Segir m.a. frá því hvernig afkomendur Eiríks og sonar hans Leifs sátu á landinu í þúsund ár, „sögðu sögur, veiddu þorsk og drukku sterkan drykk frá tímum Svartadauða. Lítið skiptu þeir sér af veröldinni í kring og annað fólk virti þá varla viðlits. Af og til spýttist eldur úr fjallinu og heitt vatn úr jörðinni en alla jafna voru dagarnir langir og leiðinlegir."
Við svo mátti ekki búa að mati eyjarskeggja og segir sagan af því þegar einn þeirra finnur upp skemmtilegt peningaspil sem gengur út á að fá margfalt meira lánað en viðkomandi á. Sá vinnur sem skuldar mest að lokum.
Segir af fádæma vinsældum peningaspilsins sem breiddist fljótt út um allt land og víðar. Íslendingum tekst að gabba fólk í Vínlandi, Noregi, Englandi og víðar til leiksins. „Út um allt plötuðu þeir fólk til að láta af hendi gullið sitt, og svo settu þeir lánsleikinn í gang."
Greint er frá því að á þessum tíma hafi „Brúni Gordon" ráðið ríkjum í Englandi, af skoskum ættum, sem þekktar eru fyrir að vera meira umhugað um skildingana sína en annað fólk. Brúni Gordon hvatti fólk sitt til að krefjast þess að fá peningana sína aftur áður en það yrði of seint. Leiddi þetta til mikils hernaðar Englendinganna á hendur Íslendingunum sem varð til þess að Íslendingarnir tóku sjálfir að telja eigið fé. Þá fundu þeir loksins út að þeir höfðu sjálfir tapað flestum eigum sínum í peningaspilinu.
Segir af því hvernig fólkið á Íslandi reisti ríkjandi herra, „Harða Geir", níðstöng við Alþingi, og sökuðu hann um svik við fólkið sitt. Við þetta fylltist Harði Geir ótta og leitaði á náðir „Stolta Jens", sem réði ríkjum í Noregi.
Stolti Jens svaraði honum með því að landar sínir hefðu sloppið við mikinn ófrið, þegar Eiríkur flúði landið. „Í þúsund ár höfum við lifað í friði fyrir ætt hans. Þú mátt fá gullið okkar. En lofaðu mér að þið verðið áfram á Íslandi. Veiðið fisk og semjið sögur sem aldrei fyrr. Og aldrei falla í freistni fyrir peningagöldrum á ný."
Endar sagan á að Harði Geir fylgir ráðum Stolta Jens, fyllir skip sitt af gulli og hverfur heim til Íslands á ný. En um allan heim gengur fólk um og veltir því fyrir sér hvað hafi orðið af peningunum þeirra.