Slátrun gengur vel

Eldisþorskur
Eldisþorskur mbl.is/Helgi Bjarnason

Vel hefur gengið að slátra eldisþorski hjá fiskeldi HB Granda á Djúpavogi en slátrun hófst í gær og var henni framhaldið í morgun. Byrjað er að vinna þorskinn, sem slátrað var í gær, í fiskiðjuveri HB Granda á Akranesi en þaðan fer hluti afurðanna ferskur í flugi á erlendan markað í dag. Þær afurðir verða komnar í kæliborð verslana ytra strax í fyrramálið.


,,Þetta hefur allt gengið að óskum. Þorskurinn er vel haldinn en meðalvigtin er ívið lægri en við töldum, miðað við prufur, eða um 2 kg að jafnaði,“ segir Kristján Ingimarsson, forstöðumaður fiskeldis HB Granda á vef fyrirtækisins, en að hans sögn verður um 20 tonnum af fiski slátrað í þessari lotu. Eftir áramót er svo fyrirhugað að slátra um 30 tonnum til viðbótar.

Þess má geta að þorskurinn er blóðgaður strax eftir að hann er tekinn úr eldiskvíunum í Berufirði. Þaðan fer hann til Djúpavogs þar sem fiskvinnslufyrirtækið Ósnes sér um slægingu. Flytjandi sér síðan um að flytja slægðan fisk til Akraness.

Þröstur Reynisson, vinnslustjóri fiskvinnslu HB Granda, segir að vinnslan á eldisþorskinum hafi gengið vel. Stærstur hluti afurðanna eru fersk hnakkastykki sem fara á Belgíumarkað. Aðrir hlutar flakanna fara í frystingu, að því er fram kemur á vef HB Granda

Þorskur
Þorskur mbl.is/Helgi Bjarnason
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert