Allt að 20 þúsund án atvinnu

Vinnumálastofnun spáir því að atvinnuleysið verði mest í byggingariðnaði
Vinnumálastofnun spáir því að atvinnuleysið verði mest í byggingariðnaði

Vinnumálastofnun áætlar að atvinnuleysi aukist hratt næstu mánuði og fari í 9‐10% á vormánuðum 2009. Hæst fari atvinnuleysi í maí samhliða því að námsmenn koma út á vinnumarkaðinn og eigi erfitt með að fá störf. Atvinnuleysi fer svo lækkandi í júní og búast megi við að það lækki áfram fram í september í takt við hefðbundna árstíðarsveiflu. Erfitt er þó að spá fyrir um hversu mikil sú lækkun verður, en reiknað er með að meðalatvinnuleysi ársins 2009 verði á bilinu 7‐9%. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu Vinnumálastofnunar um horfur á vinnumarkaði á árinu 2009.

Mest atvinnuleysi í byggingariðnaði

Nú eru um 10% þeirra sem eru á atvinnuleysisskrá á hlutabótum á móti hlutastarfi og fjölgar þeim hratt sem fá atvinnuleysisbætur á móti minnkuðu starfshlutfalli.

Atvinnuleysi verður mest í byggingariðnaði. Vinnuafli mun fækka mikið í greininni við brottflutning stórs hluta þeirra útlendinga sem þar hafa starfað auk þess sem búast má við talsverðum brottflutningi Íslendinga sem leitar sér atvinnu erlendis. Áætlað er að atvinnuleysi muni hæst fara upp undir 30% í greininni í mars og apríl en lækka nokkuð þegar kemur fram á sumar. Óvissa er þó mikil um verkefnastöðu greinarinnar í sumar.

Gert er ráð fyrir að vinnuafl í mannvirkjagerð fari niður í um átta þúsund manns undir vor, úr um 16.000 þegar mest var fyrr á þessu ári.

Spá 15% atvinnuleysi í verslun

Atvinnuleysi í verslun mun fara í um 15% í mars og haldast svipað fram í maí en fer þá lækkandi samfara aukinni verslun ferðamanna og heildverslun samfara auknum umsvifum almennt yfir sumarmánuðina. Í samgöngum og flutningastarfsemi, iðnaði og fiskvinnslu má gera ráð fyrir að atvinnuleysi fari í milli 10 og 15% síðla vetrar.

Í samgöngum og flutningastarfsemi er samdrátturinn nú þegar kominn fram að stórum hluta, en mun koma fram í iðnaði og fiskvinnslu á næstu mánuðum. Gert er ráð fyrir að atvinnuleysi fari hátt í 10% í flestum þjónustugreinum utan opinbera geirans. Atvinnuleysi verður minna í öðrum greinum.

Það er mat Vinnumálastofnunar að um 16.000 útlendingar hafi verið á vinnumarkaði síðsumars 2008. Þeim hefur fækkað hratt síðan og fáir útlendingar hafa flust til landsins í haust.

Gert ráð fyrir að í byrjun árs 2009 verði nálægt 10.000 útlendingar á íslenskum vinnumarkaði og að þeim muni fækka eitthvað áfram á árinu 2009. Stór hópur útlendinga er búinn að festa hér rætur að meira eða minna leyti og má gera ráð fyrir að nálægt 9.000 erlendir ríkisborgarar muni verða á íslenskum vinnumarkaði um mitt ár 2009. Atvinnulausum útlendingum hefur fjölgað hratt síðustu mánuði og voru tæplega 1.000 um síðustu mánaðarmót og hefur fjölgað töluvert síðan. Talið er að þeirri fjölgun sé að mestu lokið og hæst fari fjöldi útlendinga á atvinnuleysisskrá í um 1.400 í janúar.

Íslendingar munu leita eftir atvinnu í útlöndum

Allnokkur fjöldi Íslendinga mun flytja af landi brott á fyrri hluta árs 2009 í atvinnuleit sem meðal annars má ráða af fjölgun á útgefnum vottorðum til Íslendinga sem vilja fara í atvinnuleit erlendis.

Gera má ráð fyrir að draga muni verulega úr búferlaflutningum til útlanda í sumar en að einhver aukning verði á ný næsta haust í takt við hefðbundna árstíðarsveiflu í atvinnulífinu, bæði fólks sem fer utan í atvinnuleit og fólks sem fer í nám erlendis. Vinnumálastofnun áætlar að nettó fjöldi þerra sem hverfa af vinnumarkaði á árinu 2009 vegna brottflutnings til útlanda verði milli 5 og 7.000 manns.

Sjá skýrslu Vinnumálastofnunar í heild

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert