Deilt um hugsanlegan umframkvóta

Þorskur
Þorskur mbl.is/Helgi Bjarnason

Skiptar skoðanir eru um hvernig eigi að haga málum ef ákvörðun verður tekin um að auka þorskveiðar að nýju. Karl V. Matthíasson, varaformaður sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar Alþingis, sagði í viðtali við Morgunblaðið nýlega að yrðu auknar veiðar heimilaðar ætti að bjóða kvótann upp á markaði. Innan Sjálfstæðisflokks og Framsóknar er talið skýrt að viðbótarkvóti eigi að ganga til þeirra sem misstu kvóta við skerðinguna.

Ágúst Ólafur Ágústsson, varaformaður Samfylkingarinnar, segir að Karl hafi væntanlega verið að tjá sína persónulegu skoðun. Ekki eigi að útiloka þessa leið en Samfylking og Sjálfstæðisflokkur þyrftu þá að ná sátt um hana. „Það hefur alltaf verið rauði þráður Samfylkingarinnar að fiskistofninn sé í eigu þjóðarinnar og við höfum lengi gagnrýnt að kerfið sé of lokað og jafnræðis ekki gætt,“ segir Ágúst Ólafur og bætir við að samkomulag hafi náðst um að gera úttekt á reynslunni af aflamarkskerfinu og vonast hann til þess að sú vinna fari að hefjast.

Arnbjörg Sveinsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokks og formaður sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar, segir alltaf hafa legið fyrir að yrði þorskkvóti aukinn gengi hann til þeirra sem skorið var niður hjá, þ.e. útgerðanna. Í sama streng tekur Valgerður Sverrisdóttir, fulltrúi Framsóknar í nefndinni. „Það yrðu alger svik við greinina að setja viðbótarkvóta á markað,“ segir hún og bætir við að samdrátturinn hafi bitnað á útgerðinni og þess vegna væri undarlegt að láta aðra reglu gilda við aukningu „Þetta er ekki ábyrg afstaða og ætli Samfylkingin að fylgja þessari línu held ég að mikið muni ganga á við ríkisstjórnarborðið, segir Valgerður.

Innan hinna stjórnarandstöðuflokkanna tveggja kveður við annan tón. Atli Gíslason, fulltrúi VG í sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd, segir flokkinn ekki hafa tekið afstöðu til þess að setja kvótann á markað en að sú hugmynd sé skoðunarverð. Ef auka eigi þorskkvóta þurfi að taka tillit til atvinnuástandsins og stöðu byggðanna. Auka eigi landsbyggðakvótann en VG hefur einnig talað fyrir stórauknum krókaveiðum. Atli segir stóra málið núna vera að allur afli verði unninn hér á landi, meðan atvinnuleysi er sem mest. „Í fyrra fóru 56 þúsund tonn til Bretlands og það er stærra mál að halda í hann en að auka veiðarnar um 30 þúsund tonn,“ segir Atli.

Grétar Mar Jónsson, fulltrúi Frjálslynda flokksins í nefndinni, segir hugmyndina um að bjóða viðbótarkvóta út vera skref í rétta átt en að Frjálslyndi flokkurinn vilji ganga lengra. „Við viljum innkalla allar veiðiheimildir á Íslandsmiðum, búa til auðslindasjóð og leigja heimildirnar út. Ríkið fær þá leiguna til sín,“ segir Grétar Mar og leggur áherslu á að ekki þyrfti að greitt væri eftir á fyrir heimildirnar þannig að það væru ekki bara þeir „sem eiga greiðan aðgang að bankakerfinu“ sem gætu nýtt auðlindina.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert