Einn nýr fólksbíll seldist á Íslandi í síðustu viku, samkvæmt gögnum Umferðarstofu. Alls hafa selst 48 nýjar bifreiðar í mánuðinum, fólksbifreiðar og atvinnubifreiðar. Í fyrra voru þeir 1078 í sama mánuði. Samdrátturinn er 96%. Þetta kemur fram á bloggvef Egils Jóhannssonar, forstjóra Brimborgar.
„Undir venjulegum kringumstæðum þá væri maður ánægður með 100% markaðshlutdeild í sölu nýrra fólksbíla eins og raunin var hjá Brimborg í síðustu viku. Það væri sannarlega markaðsráðandi staða ef ekki væri galli á gjöf Njarðar. Aðeins var skráður einn fólksbíll í síðustu viku skv. gögnum Umferðarstofu. Við seldum hann.
Um daginn fjallaði ég líka um bílamarkaðinn og stöðuna á honum í desember. Síðan er liðin vika og heildarmarkaður kominn í 48 nýja bíla. Fólksbíla og atvinnubíla. Í fyrra voru þeir 1078 í sama mánuði. Samdráttur 96%. Samdráttur á bílamarkaði er venjulega vísbending um það sem koma skal á öðrum mörkuðum," skrifar Egill.
Sjá bloggvef Egils Jóhannssonar