Hvorki meira né minna en fimmtán fjalltoppar verða markmið þeirra kvenna sem skrá sig í sérstaka fjallkonudagskrá Fjallaleiðsögumanna. Stefnt er að því að síðasti tindurinn og sá hæsti, Hvannadalshnjúkur, verði sigraður á sjálfan kvennadaginn, 19. júní. Og þar sem laun kvenna eru aðeins 81% af launum karla er fullt verð dagskrárinnar lækkað til jafns við það.
„Hugmyndin er að fá konur út að ganga á fjöll og fá þær til að standa saman á hátindi Íslands á sjálfan kvenréttindadaginn, 19. júní," segir Dagný Indriðadóttir hjá Fjallaleiðsögumönnum. „Til að það geti orðið að möguleika er ekki nóg að hóa í liðið daginn áður heldur er nauðsynlegt að vera með einhverja þjálfunardagskrá."
Þannig fara fjöllin 15 smám saman hækkandi eftir því sem nær dregur lokatakmarkinu. „Við byrjum á litlu hólunum í kring um Reykjavík og eftir því sem þol og þrek eykst er haldið á hærri fjöll. Það eru mörg mjög flott fjöll þarna sem eru ekkert í alfaraleið. Þetta er frekar óhefðbundið prógram," segir Dagný.
Sem fyrr segir er konum boðin ferðin á „lækkuðu verði" til að undirstrika það að konur hafa aðeins 81% af launum karla. „Það er skandall að búa við þetta launamisrétti og við vildum vekja athygli á því að konur búa enn við þennan óskilgreinda launamun," segir Dagný um þetta. „Það er alltaf tækifæri og tilefni til að benda á þessa staðreynd, því ef við höfum þetta ekki upp á borðinu þá gerist ekkert í okkar málum. Með þessu vildum við leggja okkar af mörkum og bjóða konum að ganga með okkur á Hvannadalshnjúk á niðursettu verði."
Hún segir að samkvæmt framkvæmdastjóra fyrirtækisins standi starfsfólk þess jafnfætis hvað laun varðar, óháð kyni. „Og það er vert að benda á að framkvæmdastjórinn okkar er kona."