Fjórir af 11 sem létust ekki í bílbeltum

mbl.is

Það sem af er þessu ári hafa orðið tólf banaslys í umferðinni. Í ellefu þeirra kom bíll við sögu en bifhjól í einu. Af þeim ellefu einstaklingum sem létu lífið í bifreiðum voru fjórir sem ekki voru í beltum. Talið er að fækka mætti banaslysum í umferðinni um 20% og alvarlegum umferðarslysum verulega ef allir notuðu bílbelti.

Umferðarstofa og Rannsóknarnefnd Umferðarslysa hafa miklar áhyggjur af þeim fjölda alvarlegra umferðarslysa sem orðið hafa að undanförnu af völdum þess að öryggisbelti eru ekki notuð. Eitt margra alvarlegra dæma um þetta er banaslysið sem varð á Reykjanesbraut s.l. laugardagskvöld.

Ökumaður, sem allt bendir til að hafi ekki verið í öryggisbelti, kastaðist út úr bílnum með fyrrgreindum afleiðingum eftir árekstur við ljósastaur. Flest bendir til þess að koma hefði mátt í veg fyrir alvarlegar afleiðingar slysins með því einu að öryggisbelti hefði verið notað, að því er segir í tilkynningu frá Umferðarstofu.

Hinsvegar eru til fjöldamörg dæmi um það hvernig öryggisbelti bjarga fólki. Þetta vita þeir sem vinna að umferðaröryggismálum og hafa m.a. þann starfa að greina orsakir slysa og afleiðingar.

„Það er mikið áhyggjuefni að fram kemur í nýrri rannsókn sem Capasent Gallup gerði fyrir Umferðarstofu um umferðarhegðun fólks að nú eru fleiri þátttakendur sem taka þá áhættu að ferðast um í bíl án þess að nota öryggisbelti. Í ljósi þess að í mörgum tilfellum nota menn það sem afsökun að vegalengdin sé svo stutt að ekki þurfi að nota öryggisbelti skal tekið fram að í mörgum tilfellum alvarlegustu slysanna var haldið upp í stutta för og oft var hraðinn ekki mikill," að því er segir í tilkynningu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert