Laun seðlabankastjóra lækka um 15% frá áramótum, samkvæmt ákvörðun bankaráðs Seðlabankans á fundi í hádeginu í dag. Verða laun bankastjóra, þ.e. Eiríks Guðnasonar og Ingimundar Friðrikssonar 1.198.105 krónur eftir lækkun og formanns bankastjórnar, Davíðs Oddssonar 1.293.953 krónur.
Að sögn Halldórs Blöndal, formanns bankaráðs, er þetta til samræmis við úrskurð kjararáðs frá því í fyrradag, þegar það lækkaði laun ráðamanna. Var það gert í samræmi við nýsamþykkt lög, sem kváðu á um 5 - 15% lækkun launa ráðamanna. „Okkur þótti eðlilegt að lækka laun seðlabankastjóra um 15 prósent, sem er það sama og kjararáð ákvað um laun forsætisráðherra,“ segir Halldór.
Ákvörðunin gildir til loka árs 2009.