Ísfisktogarinn Ásbjörn RE er nú á leið til Þýskalands með fullfermi af fiski, um 150 tonn. Fiskinn stendur til að selja á fiskmarkaðnum í Bremerhaven í byrjun ársins.
Þetta kemur fram í frétt á heimasíðu HB Granda.
Ásgeir RE var eini togari landsmanna sem var að veiðum um jólin og var uppistaða aflans góður gullkarfi. Einnig voru í lestinni um 20 tonn af ufsa.
Kemur fram í fréttinni að mikið hafi verið haft fyrir aflanum enda nánast kolvitlaust veður megnið af veiðiferðinni. „Á aðfangadag var brugðið á það ráð að leita vars undir Hólsbergi í nágrenni Keflavíkur og þar varði áhöfnin aðfangadagskvöldinu,“ er haft eftir Ólafi Einarssyni skipstjóra.
Skipið lét úr höfn í Reykjavík í morgun eftir að hafa tekið olíu og vistir. Ásbjörn RE fór síðast utan með afla á árinu 1994 eða fyrir bráðum hálfum öðrum áratug.