„Umboðsmaður telur annmarka á þessu en þó ekki meiri en svo að hann telur að þeir leiði ekki til ógildingar," sagði Árni Mathiesen við Morgunblaðið í kvöld, í tilefni þeirrar niðurstöðu umboðsmanns alþingis að annmarkar hefðu verið á því hvernig staðið var að skipan í embætti héraðsdómara í fyrra.
Árni skipaði Þorstein Davíðsson í embætti héraðsdómara við Héraðsdóm Norðurlands eystra í desember í fyrra, en umboðsmaður komst að þeirri niðurstöðu í dag að annmarkar hafi verið á undirbúningi, ákvörðun og málsmeðferð Árna, sem setts dómsmálaráðherra.
Þorsteinn var tekinn fram yfir þrjá aðra umsækjendur, sem dómnefnd mat hæfari til verksins.
Þorsteinn hafði áður gengt starfi aðstoðarmanns Björns Bjarnasonar dómsmálaráðherra sem vék sæti við skipunina af þeim sökum. Í áliti umboðsmanns er vísað til þess rökstuðnings Árna að umsögn dómnefndarinnar hefði verið ógagnsæ, lítt rökstudd og innra ósamræmi hafi verið í mati hennar á starfsreynslu umsækjenda. Því hefðu verið vandkvæði á því að reisa ákvörðun um skipun í embættið alfarið á umsögninni. Segir umboðsmaður m.a. að ráðherra hefði átt að óska eftir að dómnefndin fjallaði að nýju um málið og gæfi honum nýja umsögn þar sem bætt væri úr þessum annmörkum áður en hann tók ákvörðun í málinu. Einnig hefði verið rétt að óska eftir að nefndin skýrði frekar hvað hefði ráðið mati hennar á starfsreynslu eins umsækjandans, sem aðstoðarmanns dóms- og kirkjumálaráðherra, í samanburði við mat á annarri starfsreynslu.
Árni sagðist í kvöld álíta síðastnefndu atriðin nýmæli; að ef skipunaraðili teldi umsagnaraðila ekki skila nægilega góðu verki þá ætti hann að senda málið aftur til baka. „Ég mun láta skoða þetta. Það getur vel verið að einhver atriði í stjórnsýslunni megi vera öðruvísi,“ sagði ráðherra.