Umboðsmaður Alþingis telur að forsætisráðherra hafi verið skylt að auglýsa embætti skrifstofustjóra nýrrar efnahags- og alþjóðafjármálaskrifstofu hjá ráðuneytinu. Honum hafi verið óheimilt að setja Björn Rúnar Guðmundsson hagfræðing í embættið til tíu mánaða, án þess að auglýsa stöðuna.
Tilkynnt var um ráðningu Björns Rúnars í lok október síðastliðinn og er honum ætlað að gegna stöðunni frá 1. nóvember 2008 til 31. ágúst 2009. Ákvað umboðsmaður Alþingis að eigin frumkvæði að taka til athugunar hvort embættið hefði verið auglýst laust til umsóknar og beindi fyrirspurn til forsætisráðuneytisins þess efnis. Féllst hann ekki á þau rök ráðuneytisins að vegna aðstæðna í efnahagslífinu hefði verið rétt að víkja frá auglýsingaskyldu til að flýta því að embættið hæfi störf. Tekur umboðsmaður það fram að miðað við dómaframkvæmd séu ekki líkur á að embættissetningin yrði metin ógild gagnvart þeim sem settur var en engu að síður sé tilefni til þess að beina tilmælum til forsætisráðuneytisins um að það leiti leiða til að bæta úr þessum annmarka sem var á ákvörðun um setningu skrifstofustjórans, og þá eftir atvikum með því að auglýsa embættið.
„Með tilliti til þeirra aðstæðna sem nú eru uppi í efnahags- og atvinnumálum hér á landi og þar sem fyrir liggur að breytingar hafa þegar orðið á atvinnuhögum fjölmargra landsmanna, og líkur eru á því að einstaklingum sem ekki hafa fasta atvinnu fjölgi á næstunni, tel ég ástæðu til að koma því almennt á framfæri við stjórnvöld að þess sé sérstaklega gætt að fylgja reglum um auglýsingar á lausum embættum og störfum hjá ríkinu," segir í niðurlagi álitsins.