776 þátttakendur í gamlárshlaupi ÍR

„Þetta er langstærsta hlaupið. Í fyrra hlupu 567 en nú hlaupa 776. Þetta er hreint frábært og mun fleiri forskráðu sig nú en í fyrra,“ segir Sigurður Þórarinsson, hlaupastjóri í gamlárshlaupi ÍR.

Hlaupið er nú þreytt í 33. skipti í miðborg Reykjavíkur og voru fyrstu hlauparar ræstir klukkan 12 frá rússneska sendiráðinu við Túngötu. Þetta er alla jafnan síðasti íþróttaviðburður ársins hér á landi og þátttakan jafnan góð. Hefð er fyrir því að hlauparar mæti í alls konar búningum og í ár verða veitt verðlaun fyrir bestu búningana, bæði hjá körlum og konum.

Hlaupnir eru 10 kílómetrar og er rásmarkið í Túngötunni. Þaðan er hlaupið vestur í bæ og út á Seltjarnarnes, til baka um Ægisíðu og Suðurgötu að endamarki við Ráðhúsið í Tjarnargötu. Leiðinni hefur verið breytt á þann veg að Bakkavararbrekkunni er sleppt að þessu sinni.

Drykkjarstöðvar eru á Suðurströnd og við Ægisíðu. Búast má við mikilli umferð á hluta leiðarinnar og hlaupararnir verða því að sýna varúð, enda hlaupa þeir á eigin ábyrgð. Brautarvarsla verður við þau gatnamót þar sem umferðin er þyngst. Leiðarkort liggja frammi við skráningu í Ráðhúsinu.

Keppt er í sjö flokkum karla og sjö flokkum kvenna, frá 18 ára og yngri til 60 ára og eldri. Allir sem ljúka hlaupinu fá verðlaunapening og auk þess fá þrír fyrstu í mark í karla- og kvennaflokki, 19-39 ára, verðlaun. Þau eru afhent í Ráðhúsinu að hlaupinu loknu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert