Lögum samkvæmt ákveður og auglýsir fjármálaráðuneytið árlega staðgreiðsluhlutfall opinberra gjalda fyrir komandi ár, en það er samtala af tekjuskatthlutfalli og meðalhlutfalli útsvars samkvæmt ákvörðunum sveitarfélaga. Nýverið voru samþykkt á Alþingi lög um ráðstafanir í ríkisfjármálum í ljósi versnandi afkomu hins opinbera vegna þess mikla samdráttar sem nú blasir við í íslensku efnahagslífi. Meðal þeirra ráðstafana var hækkun á tekjuskatthlutfalli einstaklinga úr 22,75% í 24,1% og á hámarkshlutfalli útsvars úr 13,03% í 13,28%.
Á árinu 2009 verður tekjuskatthlutfallið því 24,1% í stað 22,75% á yfirstandandi ári. Þá verður meðalútsvar á árinu 2009 samkvæmt fyrirliggjandi ákvörðunum sveitarfélaga 13,1% en var 12,97%
á árinu 2008.
Staðgreiðsluhlutfall ársins 2009 verður samkvæmt því 37,2% í stað 35,72% á þessu ári og hækkar samkvæmt því um 1,48 prósentustig milli ára.
Sveitarfélögin geta ákveðið útsvar á bilinu 11,24% til 13,28%. Af 78 sveitarfélögum leggja 54 þeirra á hámarksútsvar, þar af nýtir eitt þeirra, Bolungarvíkurkaupstaður, sérstakt 10% álag sem þýðir að útsvarshlutfallið verður 14,61%.
Þrjú sveitarfélög, Skorradalshreppur, Helgafellssveit og Ásahreppur, leggja á lágmarksútsvar, 11,24%. Eitt sveitarfélag, Fljótsdalshreppur, hefur ákveðið að lækka útsvarshlutfallið frá því sem var á þessu ári, úr 13,03% í 12;00% en 58 munu hækka það.
Persónuafsláttur hækkar
Á árinu 2009 verður persónuafsláttur hvers einstaklings 506.466 krónur, eða 42.205 krónur að meðaltali á mánuði í stað 34.034 króna, sbr. árið í ár. Hækkunin milli ára nemur samtals 24%.
Að sama skapi hækka skattleysismörk umtalsvert. Í dag eru skattleysismörkin liðlega 99 þúsund krónur á mánuði en verða 118 þúsund krónur á mánuði frá og með 1. janúar 2009 (að teknu tilliti til 4% lífeyrissjóðsiðgjalds). Hækkunin nemur 19,1%. Þetta þýðir svo dæmi sé tekið að skattgreiðslur einstaklings með 250 þúsund króna mánaðarlaun lækka um 4.600 krónur á mánuði eða tæp 2%.