„Hér situr mitt starfsfólk, tæknifólk og aðrir, lemstrað og með glóðaraugu eftir mótmælendur,“ sagði Sigmundur Ernir Rúnarsson, stjórnandi Kryddsíldarinnar á Stöð 2. Hætta varð útsendingu þáttarins eftir að mótmælendur brenndu sundur kapla sem lágu frá Hótel Borg út í útsendingarbíl Stöðvar 2. Lögregla hafði beitt piparúða á mótmælendur og þurftu tugir mótmælenda á aðhlynningu að halda.
„Þetta er það óvenjulegasta sem ég hef séð á mínum fjölmiðlaferli og hef ég þó ýmislegt séð. Einn gesta þáttarins kemst ekki hingað inn vegna aðgerða mótmælenda og aðrir eru í nokkurs konar herkví hér inni,“ sagði Sigmundur Ernir, skömmu eftir að hætta varð útsendingu vegna skemmda á tækjabúnaði.
„Það hafa verið unnar skemmdir á húsnæði Hótels Borgar og líka á okkar tækjabúnaði. Þetta eru umtalsverðar skemmdir. Verst er þó að mótmælendur skuli hafa látið reiði sína bitna á tæknifólkinu, það get ég ekki skilið. Ég virði rétt fólks til að mótmæla en þarna var farið langt yfir strikið,“ sagði Sigmundur Ernir.
Samkvæmt hefðinni átti að tilkynna val á manni ársins í Kryddsíldinni. Ekkert varð þó af því vegna mótmælanna.
„Þeir stóðu hér sminkaðir og klárir í útsendingu, Snorri Steinn Guðjónsson og Guðmundur Guðmundsson, fulltrúar manns ársins sem að okkar mati var karlalandsliðið í handbolta. Þeir eru vel að þeim titli komnir strákarnir en formlegheitin verða að bíða betri tíma,“ sagði Sigmundur Ernir og bætti við að ekki væri loku fyrir það skotið að Kryddsíldin yrði flutt ótrufluð á fyrstu dögum nýs árs en þá í tryggara húsnæði.