Fimm starfsmönnum Kaupþings var sagt upp störfum í gær og fyrradag, þar af þremur framkvæmdastjórum og einum forstöðumanni. Þau eru Bjarki Diego, framkvæmdastjóri fyrirtækjasviðs og fyrrverandi nefndarmaður í skilanefnd gamla Kaupþings, Guðný Arna Sveinsdóttir, framkvæmdastjóri fjármála og rekstrar, Þórarinn Sveinsson, framkvæmdastjóri eignastýringar, Jónas Sigurgeirsson, forstöðumaður upplýsingarsviðs, og Benedikt Sigurðsson upplýsingafulltrúi.
Verið að rjúfa tengsl
Heimildir Morgunblaðsins herma að nokkrar ástæður hafi legið að baki uppsögnunum. Í fyrsta lagi hafi hópur stjórnenda sem enn var að störfum í Kaupþingi verið mjög nátengdur Sigurði Einarssyni, fyrrverandi stjórnarformanni bankans, og Hreiðari Má Sigurðssyni, fyrrverandi forstjóra hans.
Sá hópur starfsmanna hafi myndast á upphafsárum Kaupþings og verið mjög samheldinn.
Með því að segja upp hluta þess hóps hafi verið send ákveðin skilaboð innandyra í bankanum um hvernig nýir stjórnendur hans hyggjast taka á málum og að slíta ofangreind tengsl.
Þá þótti einnig nauðsynlegt að senda skilaboð út á við til þjóðfélagsins um að enginn innan bankans væri ósnertanlegur í sínu starfi heldur gengju nýir stjórnendur bankans fram af festu í mál og segðu stjórnendum upp ef ástæða þætti til.
Auk þess hefur PriceWaterhouseCoopers lokið við gerð skýrslu um rannsókn á starfsemi Kaupþings á síðustu mánuðum fyrir hrun íslenska bankakerfisins. Henni á að skila til Fjármálaeftirlitsins í dag.
Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins mun eitt og annað koma þar fram sem hægt er að setja spurningarmerki við, þó ekki sé þar með sagt að það tengist þeim einstaklingum sem sagt var upp í gær.
Skýrslum skilað í dag
Rannsókn óháðra aðila á starfsemi hinna föllnu íslensku banka síðustu mánuðina fyrir bankahrun er að mestu lokið. Endurskoðendafyrirtækin PriceWaterhouseCoopers, sem rannsakaði Kaupþing, og Deloitte, sem rannsakaði Landsbankann, eiga að skila skýrslum um rannsóknir sínar til Fjármálaeftirlitsins (FME) í dag.