Hlýtur að koma til skoðunar samkeppnisyfirvalda

Hermann Jónasson, fyrrverandi forstjóri Tals og Sævar Freyr Þráinsson, forstjóri …
Hermann Jónasson, fyrrverandi forstjóri Tals og Sævar Freyr Þráinsson, forstjóri Símans þegar samningurinn umdeildi var undirritaður.

„Ég tel þessa ákvörðun ólögmæta og ekki í samræmi við samþykktir félagsins. Hermann hefur staðið sig afar vel í starfi og ætíð gætt hagsmuna Tals í sínum störfum,“ segir Jóhann Óli Guðmundsson, fulltrúa Capital Plaza sem fer með 49% hlut í Tali. Hann vísar þar til ágreinings um samning Tals við Símann og óvænta uppsögn forstjóra félagsins í gær. Jóhann Óli segir að kippt hafi verið í spotta og fulltrúar Teymis kosið að gæta frekar hagsmuna Vodafone en hluthafa og viðskiptavina Tals. Málið hljóti að koma til frekari skoðunar samkeppnisyfirvalda.

Fulltrúar Teymis í stjórn Tals sögðu í gær forstjóra félagsins, Hermanni Jónassyni, upp störfum og tilkynntu að samningi sem hann hefur nýlega gert um aðgang að gsm-dreifikerfi Símans í stað kerfis Vodafone, hefði verið rift. Hermanni mun hafa verið vísað af skrifstofu sinni og meinaður aðgangur að gögnum þar. Teymi sem jafnframt er eigandi símafélagsins Vodafone á 51% eignarhlut í Tali á móti Jóhanni Óla Guðmundssyni og Hermanni.

Yfirlýsing frá Jóhanni Óla Guðmundssyni vegna málsins
„Skömmu fyrir jól gerði Tal samning um að viðskiptavinir fyrirtækisins fengju aðgang að dreifikerfi Símans frá og með næstu áramótum. Tal hefur haft samning við Vodafone um aðgang að dreifikerfi þess en jafnframt haft reikisamning við Símann, með milligöngu Vodafone. Eftir að Póst- og fjarskiptastofnun úrskurðaði að slíkir samningar með milligöngu þriðja aðila væru óheimilir, þurfti Tal að velja á milli dreifikerfa þeirra aðila sem eru í rekstri. Þar sem kerfi Vodafone nær ekki til alls landsins var ljóst að öruggasta leiðin fyrir Tal  var að semja við Símann og tryggja viðskiptavinum samband um allt land.

Á stjórnarfundi Tals 11. desember sl. var forstjóra falið að „leysa málið á næstu dögum með hag félagsins og viðskiptavina að leiðarljósi.“  Í framhaldinu gerði hann samning við Símann um að aðgang að dreifikerfi hans.  Á stjórnarfundi Tals 29. desember dró hins vegar til tíðinda þegar fulltrúar Teymis í stjórn félagsins, tilkynntu að þeir hefðu einhliða rift fyrrgreindum samningi og jafnframt ákveðið að víkja forstjóra félagsins umsvifalaust frá störfum. 

Ég tel þessa ákvörðun ólögmæta og ekki í samræmi við samþykktir félagsins. Hermann hefur staðið sig afar vel í starfi og ætíð gætt hagsmuna Tals í sínum störfum. Yfirlýsing Þórdísar J. Sigurðardóttur, stjórnarformanns Tals í Morgunblaðinu í dag vekur og furðu mína þar sem hún fullyrðir að Hermann hafi ekki haft umboð stjórnar til að semja um þetta mál. Hún var sjálf á þeim stjórnarfundi þar sem hann var hvattur til að finna lausn á vandamálinu og tryggja samning um hagsmuni félagsins. Allt þetta kemur skýrt fram í fundargerð stjórnar Tals frá 11. desember sl. 

Auðvitað er málið einfaldlega þannig vaxið að það hefur verið kippt í spotta og fulltrúar Teymis kosið að gæta frekar hagsmuna Vodafone en hluthafa og viðskiptavina Tals. Það er grafalvarlegt mál og hlýtur að koma til frekari skoðunar samkeppnisyfirvalda.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert