Níu brennur í borginni

Vel gekk að safna í bál­kesti fyr­ir ára­mót­in að sögn Jóns Berg­vins­son­ar, brennu­kóngs og rekstr­ar­full­trúa á hverfa­stöð Fram­kvæmda- og eigna­sviðs. Búið er að loka fyr­ir mót­töku á flest­ar þeirra sem eru í um­sjá Reykja­vík­ur­borg­ar.

Um þessi ára­mót verða 9 ára­móta­brenn­ur í Reykja­vík. Þar af eru sex borg­ar­brenn­ur en þær eru al­farið á ábyrgð Fram­kvæmda- og eigna­sviðs Reykja­vík­ur­borg­ar. Starfs­menn hverfa­stöðva Fram­kvæmda- og eigna­sviðs hafa tekið á móti efni í borg­ar­brenn­urn­ar og voru þær um há­degi á þriðju­dag nán­ast til­bún­ar.

Enga skotelda með á brenn­urn­ar

Jón Berg­vins­son, brennu­kóng­ur og rekstr­ar­full­trúi á hverfa­stöð Fram­kvæmda- og eigna­sviðs hvet­ur fólk til að vera ekki með skotelda á brenn­un­um. „Við mæl­um með því að fólk mæti með stjörnu­ljós. Það er barn­vænt og hættu­lítið,“ seg­ir hann. „Það hef­ur dregið úr því að fólk mæti með skotelda á brenn­urn­ar og þeir sem koma með tert­ur og skotelda verða að vera fjarri brenn­unni og öðrum gest­um. Það er mik­il­væg­ast að mæta með góða skapið og til­lits­sem­ina,“ seg­ir Jón.

Eng­in form­leg dag­skrá er á borg­ar­brenn­un­um en Jón hvet­ur fólk til að rifja upp álfa­söngv­ana.

Ára­móta­brenn­ur á níu stöðum í Reykja­vík

Brenn­urn­ar eru í tveim­ur stærðarflokk­um, sem ræðst af aðstæðum á hverj­um stað, en Eld­varn­ar­eft­ir­litið ákv­arðar og hef­ur eft­ir­lit með stærð brenna. Stóru brenn­urn­ar eru fjór­ar eins og í fyrra.  

Stór­ar brenn­ur:
- við Ægisíðu, borg­ar­brenna
- á Geirs­nefi, borg­ar­brenna
- í Gufu­nesi vest­an Rima­hverf­is, borg­ar­brenna
- við Rauðavatn, Fylk­is­brenna

Litl­ar brenn­ur:
- við Suður­hlíðar neðan við Foss­vogs­kirkju­g­arð, borg­ar­brenna
- við Suður­fell, borg­ar­brenna
- Klé­berg á Kjal­ar­nesi, borg­ar­brenna
- í Skerjaf­irði gegnt Skild­inga­nesi 44 – 46, Hverfa­fé­lagið Skjöld­ur
- vest­an Laug­ar­ás­veg­ar til móts við Val­bjarn­ar­völl.

Kveikt verður í öll­um brenn­um kl. 20:30 á gaml­árs­kvöld, að frá­tal­inni einni.  Und­an­tekn­ing­in er brenn­an í Skerjaf­irði en tendrað verður á henni kl. 21:15 að af­lok­inni blys­för frá Bauga­nesi, sem hefst kl. 21:00.

Ekki verður brenna í Ártúns­holti eins og verið hef­ur und­an­far­in ár.

mbl.is

Bloggað um frétt­ina

Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert