Níu brennur í borginni

Vel gekk að safna í bálkesti fyrir áramótin að sögn Jóns Bergvinssonar, brennukóngs og rekstrarfulltrúa á hverfastöð Framkvæmda- og eignasviðs. Búið er að loka fyrir móttöku á flestar þeirra sem eru í umsjá Reykjavíkurborgar.

Um þessi áramót verða 9 áramótabrennur í Reykjavík. Þar af eru sex borgarbrennur en þær eru alfarið á ábyrgð Framkvæmda- og eignasviðs Reykjavíkurborgar. Starfsmenn hverfastöðva Framkvæmda- og eignasviðs hafa tekið á móti efni í borgarbrennurnar og voru þær um hádegi á þriðjudag nánast tilbúnar.

Enga skotelda með á brennurnar

Jón Bergvinsson, brennukóngur og rekstrarfulltrúi á hverfastöð Framkvæmda- og eignasviðs hvetur fólk til að vera ekki með skotelda á brennunum. „Við mælum með því að fólk mæti með stjörnuljós. Það er barnvænt og hættulítið,“ segir hann. „Það hefur dregið úr því að fólk mæti með skotelda á brennurnar og þeir sem koma með tertur og skotelda verða að vera fjarri brennunni og öðrum gestum. Það er mikilvægast að mæta með góða skapið og tillitssemina,“ segir Jón.

Engin formleg dagskrá er á borgarbrennunum en Jón hvetur fólk til að rifja upp álfasöngvana.

Áramótabrennur á níu stöðum í Reykjavík

Brennurnar eru í tveimur stærðarflokkum, sem ræðst af aðstæðum á hverjum stað, en Eldvarnareftirlitið ákvarðar og hefur eftirlit með stærð brenna. Stóru brennurnar eru fjórar eins og í fyrra.  

Stórar brennur:
- við Ægisíðu, borgarbrenna
- á Geirsnefi, borgarbrenna
- í Gufunesi vestan Rimahverfis, borgarbrenna
- við Rauðavatn, Fylkisbrenna

Litlar brennur:
- við Suðurhlíðar neðan við Fossvogskirkjugarð, borgarbrenna
- við Suðurfell, borgarbrenna
- Kléberg á Kjalarnesi, borgarbrenna
- í Skerjafirði gegnt Skildinganesi 44 – 46, Hverfafélagið Skjöldur
- vestan Laugarásvegar til móts við Valbjarnarvöll.

Kveikt verður í öllum brennum kl. 20:30 á gamlárskvöld, að frátalinni einni.  Undantekningin er brennan í Skerjafirði en tendrað verður á henni kl. 21:15 að aflokinni blysför frá Bauganesi, sem hefst kl. 21:00.

Ekki verður brenna í Ártúnsholti eins og verið hefur undanfarin ár.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert