Mikill viðbúnaður er í miðborginni vegna mótmæla fyrir utan Hótel Borg. Að minnsta kosti 16 lögreglubílar, 3 sjúkrabílar, tækjabíll slökkviliðsins og óeirðasveit lögreglunnar hafa verið kölluð til.
Hátt á sjötta tug lögreglumanna eru við störf í miðborginni. Hætta varð útsendingu Kryddsíldar eftir að mótmælendur brenndu og skáru sundur tækjakapla. Starfsfólk Stöðvar lenti í átökum við mótmælendur og eftir að lögregla beitti piparúða þurftu tugir á aðhlynningu að halda.
Fréttamaður mbl.is á vettvangi segir að mikil spenna sé í loftinu. Á þriðja hundrað manns var við Hótel Borg þegar mest var. Einhverjir voru handteknir í kjölfar þess að upp úr sauð.