Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu bókaði 210 verkefni frá kl. 19 á gamlársdag til kl. 08 á nýársdag. Þetta eru talsvert fleiri mál en í fyrra en þá voru um 170 verkefni bókuð á sama tímabili.
Fimm tilkynningar bárust um eld eða bruna og reyndist það allt minniháttar, samkvæmt frétt lögreglunnar. Svo virðist sem kveikt hafi verið í bifreið í Fossvoginum. Rúða var brotin í bílnum og steinn inni í honum. Einnig var tilkynnt um íkveikjur í rusli á fjórum stöðum í borginni.
Níu líkamsárásir tilkynntar til lögreglu. Allar voru þær eftir stympingar í miðborginni og reyndist enginn vera með alvarlega áverka eftir. „Minniháttar áverkar og sært stolt,“ eins og segir í frétt lögreglunnar.
Tilkynnt var um þrjú flugeldaslys. Í Garðbæ sprakk blys í höndum sex ára barns, ekki vitað um meiðsl. Þá sprakk flugeldaterta þegar karlmaður ætlaði að kveikja í henni. Hann fékk áverka á hendi og var farið var með hann á slysadeild. Þá sprakk flugeldur þegar verið var að kveikja í honum við hús í Kópavogi. Meiðsl reyndust vera minniháttar.
Karlmaður á þrítugsaldri sem hafði verið að klifra í vinnupöllum við Hallgrímskirkju virðist hafa dottið niður og var fluttur á slysadeild. Hann var talinn vera undir áhrifum áfengis. Meiðsl hans voru minniháttar.
Innbrotsþjófur var gripinn glóðvolgur í húsi í austurborginni í nótt. Húsráðandi var var að koma heim þegar hann heyrði þrusk innandyra og hringdi til lögreglu. Lögregla handtók manninn inni í íbúðinni þar sem hann var búinn að taka til verðmæti og búa til flutnings. Þjófurinn tók móti lögreglu grímuklæddur með klaufhamar og hníf að vopni. Hann var yfirbugaður í snatri og gistir nú fangageymslur. Hann var í annarlegu ástandi og á honum fundust ætluð fíkniefni.
Þá var einstaklingur handtekinn í Hafnarfirði með um 20 stykki af E töflum og smáræði af hvítu efni ætluðu amfetamíni. Hjá honum fundust loftskammbyssa og loftriffill sem voru haldlögð.
Þá hreinsaði lögregla út úr samkvæmi í iðnaðarhúsnæði í Kaplakrika. Um 150 manns var vísað út, Engin leyfi voru fyrir samkvæminu og húsnæðið ekki tekið út með tilliti til brunavarna.
Tilkynnt var um 36 minniháttar skemmdarverk. Þau voru allt frá því að póstkassar voru sprengdir, sem virðist hefðbundið um áramót, og upp í rúðubrot.
Við Réttarholtsskóla var maður í annarlegu ástandi handtekinn og grunaður um að hafa brotið 76 rúður í skólanum. Hann fannst blóðugur á höndum með hamar í hönd.
Undir morgun var maður laminn í miðborginni og fluttur meðvitundarlaus á slysadeild. Tveir ætlaðir gerendur voru handteknir.
„Annars má segja að gleðskapur næturinnar hafi farið fram með hefðbundnum erli hjá lögreglunni, mikið um smáútköll, s.s. tilkynningar um samkvæmishávaða og þess háttar í heimahúsum. En allt virðist þetta nú hafa gengið stóráfallalaust fyrir sig,“ samkvæmt upplýsingum frá varðstjóra lögreglunnar