Mótmælt á Austurvelli á morgun

mbl.is

Raddir fólksins standa á morgun fyrir mótmælafundi á Austurvelli.Sem fyrr er yfirskrift fundarins „Breiðfylking gegn ástandinu.“

Þetta verður þrettándi mótmælafundurinn á Austurvelli en um er að ræða vikuleg mótmæli sem hafa verið allt frá bankahruninu í október.

Forsvarsmenn Radda fólksins fóru á fund fjármálaráðherra í dag og kröfðu hann um tafarlausa afsögn.

Í tilkynningu fundarboðenda segir að róðurinn verður hertur til muna á nýju ári. Baráttan í vetur snúist um framtíð þjóðarinnar, heill og hamingju barnanna okkar. Af því tilefni ávarpar Dagný Dimmblá, 8 ára skólastelpa, fundinn.
 
Ræðumenn dagsins verða Halldóra Guðrún Ísleifsdóttir, kennari og grafískur hönnuður og Einar Már Guðmundsson, rithöfundur. Fundarstjóri verður sem fyrr, Hörður Torfason.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert