Sjaldan færri látist í umferðarslysum

Árið 2008 létust 12 manns í jafnmörgum umferðarslysum hér á landi. Tíðni banaslysa í umferðinni  hefur ekki verið svona lág í langan tíma. Undanfarin 20 ár hafa 434 einstaklingar látið lífið í umferðinni, eða að meðaltali tæplega 22 á ári.

Að því er segir í tilkynningu frá Umferðarráði hefur það aðeins gerst tvisvar frá því að formleg skráning umferðarslysa hófst árið 1967 að færri en 12 hafi látið lífið í umferðinni á ári. Það var árið 1968 og 1996. Árið 1994 létust jafn margir. Í tilkynningunni segir einnig að í umferðaröryggisáætlun stjórnvalda séu þau markmið að fjöldi látinna í umferðinni á hverja 100 þúsund íbúa verði ekki meiri en það sem lægst gerist hjá öðrum þjóðum fyrir árið 2016. Það markmið náðist árið 2007 og allt bendir til þess að það hafi aftur tekist árið 2008. Ekki er þó hægt að staðfesta það fyrr en fyrir liggja tölur frá öðrum þjóðum þar um.

„Þetta er óneitanlega þróun í rétta átt  en þó skal varað við því að meta árangur í umferðaröryggismálum eingöngu út frá þeim fjölda sem lætur lífið í umferðinni. Tölfræðin að baki fjölda látinna er það lág að ein og sér er hún ekki marktækur mælikvarði. Eitt slys getur hækkað hlutfallslegan fjölda látinna um tugi prósenta. Þróun og árangur umferðaröryggis verður að meta út frá samanlögðum fjölda látinna og alvarlega slasaðra en þær tölur liggja enn ekki fyrir.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert