Íslenskir sjómenn eru byrjaðir að draga björg í bú á nýju ári en mörg skip og bátar hafa haldið til veiða í dag. Húsvískir sjómenn eru þar engin undantekning og nú síðdegis voru fyrstu landróðrarbátarnir að koma að landi í blíðskaparveðri.
Línubátarnir Ásgeir ÞH-198 og Eiki Matta ÞH-301 komu að með skömmu millibili og var fréttaritari mbl.is á bryggjunni þegar Eiki Matta renndi að bryggju.
Á Eika Matta róa mágarnir Hörður Eiríksson og Jón Óli Sigfússon með landbeitta línu. Línan var lögð út með Tjörnesi, á svokölluðum hryggjum. Aflinn var um 100 kíló á bjóð en róið var með 16 bjóð að þessu sinni.