Ekki er enn ljóst hvernig pilturinn, sem handtekinn var með hlaðna skammbyssu skömmu fyrir miðnætti í gær, komst yfir vopnið en skýrslutökur vegna málsins miðast meðal annars við að upplýsa það, að sögn Friðriks Smára Björgvinssonar, yfirlögregluþjóns rannsóknardeildar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.
„Skýrslutökur fara fram í dag og bæði faðirinn og pilturinn hafa verið boðaðir í þær. Rannsóknin snýr meðal annars að því að upplýsa um hvernig geymslu vopnsins var háttað,“ sagði Friðrik Smári í samtali við mbl.is í dag. Skýrslutökum vegna málsins er enn ekki lokið.
Pilturinn var handtekinn hjá ættingjum sínum Fellahverfi eftir að ábendingar bárust um að hann væri þar. Lögreglan hafði leitað hans í nokkrar klukkustundir en mikill viðbúnaður var hjá lögreglu. Lögreglumenn klæddust skotheldum vestum og sérútbúnum hjálmum þegar piltsins var leitað en hann hefur áður komið við sögu lögreglu.
Ljóst er að faðir piltsins var eigandi byssunnar. Hann hafði leyfi til eiga byssuna, samkvæmt upplýsingum frá lögreglu. Ekki hefur fengist upplýst hvers vegna maðurinn hafði leyfi fyrir skammbyssunni en samkvæmt vopnalögum er ólöglegt að flytja hana inn í landið.
Maðurinn sem er skráður eigandi byssunnar er fyrrverandi lögreglumaður.