Norðurál á í viðræðum við fimm evrópska banka um fjármögnun álversbyggingar í Helguvík. Ágúst F. Hafberg, framkvæmdastjóri viðskiptaþróunar og samskipta Norðuráls, vonar að þeim viðræðum og eins viðræðum orkufyrirtækja um fjármögnun ljúki á næstu mánuðum. Hann segir að töf á fjármögnun vegna bankahrunsins seinki framkvæmdinni um 6-12 mánuði. Nú er stefnt að því að gangsetja fyrsta áfanga álversins í Helguvík eftir mitt ár 2011.
Össur Skarphéðinsson iðnaðarráðherra upplýsti í aðsendri grein í Fréttablaðinu í dag að undir lok síðasta árs hefði hann tekið ákvörðun um að láta staðfesta fjárfestingarsamning vegna allt að 360 þúsund tonna álvers í Helguvík. Ágúst sagði þennan samning vera sambærilegan við þann sem gerður var við Alcoa vegna Fjarðaáls og við Norðurál vegna álversins á Grundartanga.
„Þetta er ríflega 200 milljarða króna fjárfesting, eða 1,8 milljarðar dollara. Hún á að standa í a.m.k. 50 ár og verður ekki flutt neitt annað. Stöðugleiki er grundvallaratriði og eins og staðan er á Íslandi í dag er mjög erfitt að fá langtíma fjárfestingu nema að hafa svona fjárfestingarsamning,“ sagði Ágúst.
Búið var að semja við tvo íslenska banka og einn erlendan um fjármögnun en þeir féllu allir. Því þurfti aftur að hefja viðræður um fjármögnun frá grunni.
Nú er gert ráð fyrir að byggja álverið í fjórum 90.000 tonna áföngum og kallar það á nokkra endurhönnun. Eftir að fyrsti áfangi hefur verið gangsettur er ráðgert að ljúka hverjum hinna þriggja síðari áfanga á 12-15 mánaða fresti.