Íslendingar aldrei verið svartsýnni

mbl.is/Ómar

Íslendingar eru yfirleitt svartsýnir á horfur ársins 2009 og hafa aldrei verið jafn svartsýnir frá því mælingar hófust, samkvæmt niðurstöðum könnunar Gallup sem gerð var undir lok síðasta árs. Könnunin var gerð í 46 löndum.

Um 67% Íslendinga töldu að persónulegir hagir þeirra yrðu verri á árinu 2009 en þeir voru í fyrra. Tæplega 30% töldu að persónulegir hagir þeirra yrðu svipaðir og á nýliðnu ári en aðeins 4% væntu batnandi hags fyrir sig.

Viðhorf til efnahagsástands á komandi ári hefur aldrei mælst jafn neikvætt og það mældist í lok síðasta árs. Rúmlega 90% Íslendinga töldu að efnahagsástandið yrði verra á árinu 2009 en það var á árinu 2008, 6% töldu að það yrði svipað bæði árin og aðeins 3% áttu von á að það myndi batna. Þá töldu 93% að atvinnuleysi ætti eftir að aukast á árinu 2009. Hlutfall þeirra sem voru þessarar skoðunar hefur hækkað um 46 prósentustig frá síðustu mælingu. Hins vegar töldu 4% að atvinnuleysi yrði svipað á þessu ári og það var í fyrra en 2% minna.

31% óttast atvinnumissi

Þegar spurt var um atvinnuhorfur launþega, ýmist í fullu starfi eða hlutastarfi, töldu tæplega 69% Íslendinga sig vera í öruggri vinnu en 31% taldi líkur á atvinnumissi. Á síðasta ári voru 12% á því að þau gætu orðið atvinnulaus. Um 47% Íslendinga töldu að það myndu taka stuttan tíma að finna nýja vinnu en jafn stór hópur taldi að það gæti tekið langan tíma.

Þegar á heildina er litið má segja að almennt ríki svartsýni gagnvart árinu 2009. Íslendingar skipa sér á bekk með íbúum Vestur-Evrópu sem eru líkt og áður þeir svartsýnustu í heimi hér.

Niðurstöður þessar fengust með netkönnun sem gerð var 25. nóvember til 1. desember í fyrra. Úrtaksstærð var 1.874 manns á aldrinum 18-75 ára af öllu landinu úr viðhorfahópi Capacent Gallup. Svarhlutfall var 65%.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka