Kosningar óumflýjanlegar

„Það verða kosningar á þessu ári. Ég er sannfærður um það vegna þess að annað væri óráð. Menn sjá það að lokum að það er forsenda þess að okkur takist að leysa viðfangsefnið. Aðalatriðið er að verkefnið verði leyst. Forsenda þess eru kosningar,“ segir Steingrímur J. Sigfússon, formaður VG í viðtali við Jóhann Hauksson í DV í dag.

Steingrímur segist í viðtalinu algerlega sannfærður um að verkefnið sem við blasir sé viðráðanlegt.

„Það er leysanlegt og það skal takast að endurreisa Ísland. En ein frumforsenda þess að það gangi er að málin verði gerð upp á heiðarlegan hátt, í kosningum ekki síst og að ný ríkisstjórn, með þjóðina með sér og á bak við sig, geti farið í verkefnið. Þetta mun aldrei takast með ríkisstjórn sem er með þjóðina upp á móti sér. Það er vonlaust. Það ríkir gríðarleg vantrú,“ segir Steingrímur J. Sigfússon.

Hann segist enn þeirrar skoðunar að rétt sé að mynda bandalag með Samfylkingunni.

„Það þurfa allir að fórna einhverju þegar efnt er til samstarfs. Ég held að það hafi svo sem ekki mikið breyst í sambandi okkar við Samfylkinguna frá því fyrir kosningar þegar ég reyndi að koma á rauðgrænu bandalagi líkt og í Noregi. Ég spilaði því út á síðasta kjörtímabili. Nú hefur það ánægjulega gerst í Svíþjóð að Vinstriflokkurinn og sósíaldemókratar og græningjarnir ætla að mynda bandalag fyrir næstu þingkosningar í landinu með svipuðu sniði og menn gerðu í Noregi með góðum árangri. Í Danmörku er líka mikil umræða um þetta. Þar er systurflokkur okkar, Sósíalíski þjóðarflokkurinn, á miklu flugi. Ég er ennþá bjargfast þeirrar sannfæringar að rétt sé að mynda hér rauðgrænt bandalag. Vandinn er sá að Samfylkingin valdi að fara í ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokknum og situr þar enn,“ segir Steingrímur J. Sigfússon í viðtali við DV.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert