Ósáttur við forgangsröðina

Aðalsteinn Baldursson, formaður Framsýnar.
Aðalsteinn Baldursson, formaður Framsýnar. Hafþór Hreiðarsson

„Mér hefur alltaf fundist að við sætum ekki við sama borð og þeir á Suðurnesjunum. Skilaboðin frá stjórnvöldum, og nú síðast framkvæmdastjóra Samfylkingarinnar, virðast vera þau að ekki sé vilji til þess að byggja upp atvinnu hér í Norðurþingi með sama krafti og á höfuðborgarsvæðinu,“ segir Aðalsteinn Baldursson formaður Framsýnar stéttarfélags í Norðurþingi.

Össur Skarphéðinsson iðnaðarráðherra greinir frá því í grein í Fréttablaðinu í dag að hann hafi ákveðið að staðfesta fjárfestingasamning vegna allt að 360 þúsund tonna álveri í Helguvík. Samningurinn er sagður forsenda þess að mögulegt verði að fjármagna framkvæmdir í Helguvík, með lánum frá fimm erlendum bönkum.  Álverið mun fullbúið þurfa um 550 megavött af rafmagni.

Nokkurrar óvissu gætir nú um fyrirhugaðar álversframkvæmdir Alcoa á Bakka í Norðurþingi. Viljayfirlýsing um áframhald verkefnisins var ekki endurnýjuð í haust. Forsvarsmenn Alcoa hafa þó sagt að þeir hafi áfram áhuga á uppbyggingu álsvers á svæðinu.

Fjármögnun framkvæmdanna í Helguvík er ekki möguleg sem stendur vegna erfiðra aðstæðna á fjármálamörkuðum í heiminum. Fjármálastofnanir í heiminum halda að sér höndum og lána ekki fé nema í litlu mæli.

Skúli Helgason, framkvæmdastjóri Samfylkingarinnar, segir í grein á vefsíðu Samfylkingarinnar að álver í Helguvík eigi að vera síðasta álverið hér á landi, að minnsta kosti í bili. Einblína eigi á aðra þætti þegar hugað er að atvinnulífi. „Ég tel hins vegar að ríkisstjórnin eigi að lýsa því yfir að þetta verði síðasta álverið sem rís á Íslandi um fyrirsjáanlega framtíð og nú verði mótuð ný atvinnustefna með áherslu á nýsköpun, fjölbreytni í atvinnulífinu og jafnvægi milli atvinnugreina.  Stjórnvöld eiga að nýta umþóttunartímann sem nú gefst til að leita annarra og vistvænni kosta á sviði orkufreks  iðnaðar, t.d. á Norðurlandi þar sem mikil þörf er á atvinnuuppbyggingu,“ segir Skúli í grein sinni.

Aðalsteinn segir það vera einkennilega forgangsröðun að atvinnulíf á landsbyggðinni sé sett aftar í forgangsröðina en atvinnulíf á Suð-Vesturhorninu. „Það er vonandi að það verði hægt að skapa sem flest störf. En það eru vitaskuld vonbrigði að sjá það, skýrt og greinilega, að það er lítið að marka yfirlýsingar stjórnamálamanna er varðar atvinnuuppbyggingu á Norðurlandi. Margir hafa líst yfir stuðningi við álversuppbyggingu en alltaf hefur þó verið meira forgangsmál að bæta við álveri á atvinnusvæðinu á höfuðborgarsvæðinu. Stjórnmálamenn, sem með réttu ættu að vera í mikilli naflaskoðun vegna atburða síðustu mánaða, mega ekki gleyma því að þenslan í hagkerfinu hér var fyrst og fremst á höfuðborgarsvæðinu. Í Norðurþingi hefur verið kreppa í 10 til 15 ár líkt og víðar annars staðar. Þessar fyrstu vísbendingar um hvert á að stefna, þegar kemur að forgangsmálum í atvinnuuppbygginu, eru því miður ekki í takt við væntingar mínar,“ segir Aðalsteinn.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert