Jóhann Óli Guðmundsson, stjórnarmaður í Tali og einn eigenda fyrirtækisins, fullyrðir að Hermann Jónasson, fyrrverandi forstjóri Tals, hafi haft umboð stjórnar fyrirtækisins til að semja við Símann um reikisamtöl.
Fulltrúar Teymis í stjórn Tals sögðu 30. desember sl. forstjóra félagsins, Hermanni Jónassyni, upp störfum og tilkynntu að samningi sem hann hafði nýlega gert um aðgang að gsm-dreifikerfi Símans í stað kerfis Vodafone, hefði verið rift. Hermanni var vísað af skrifstofu sinni og meinaður aðgangur að gögnum þar.
Teymi sem jafnframt er eigandi símafélagsins Vodafone á 51% eignarhlut í Tali á móti Jóhanni Óla Guðmundssyni og Hermanni.
Skeyti hafa gengið milli Þórdísar J. Sigurðardóttur, stjórnarformanns Tals og Jóhanns Óla Guðmundssonar, stjórnarmanns í Tali. Meðal annars er karpað um hvort fundargerð IP fjarskipta frá 11. desember, sem send hefur verið út til stjórnarmanna, hafi eitthvert gildi, þar sem hún er hvorki samþykkt né undirrituð. Í fundargerðinni er bókað að Hermanni Jónassyni, fyrrverandi forstjóra Tals, hafi verið falið að leysa vandamál vegna reikisamninga Tals málið „á næstu dögum“ með hag félagsins og viðskiptavina að leiðarljósi.
Þórdís J. Sigurðardóttir, stjórnarformaður Tals segir fundargerðina ekki hafa neitt gildi þar sem hún sé ekki formlega afgreidd. Jóhann Óli Guðmundsson er á öðru máli eins og lesa má í yfirlýsingu sem hann sendi frá sér í dag vegna brottvikningar forstjórans.