Halldór Einarsson, eigandi Henson og fyrrum knattspyrnumaður, segist vonast til þess að stytta af Alberti Guðmundssyni muni rísa á næsta ári. Halldór átti hugmyndina að því að Alberti yrði sýndur þessi sómi en Albert var fyrsti Norðurlandabúinn sem gerðist atvinnumaður í knattspyrnu.
Halldór situr í nefnd sem vinnur að málinu og segir að meiningin sé að styttan verði reist við aðalinngang höfuðstöðva KSÍ við Laugardalsvöll.
,,Það er ansi langt síðan ég fékk þessa hugmynd. Ef ég á að giska þá hefur það væntanlega verið árið 1997. Ég hringdi í Eggert Magnússon, þáverandi formann KSÍ, og ég hélt satt að segja að við myndum bara ganga í málið,“ sagði Halldór.
Hann segir Eggert ekki hafa sýnt málinu mikinn áhuga en hins vegar hafi komist skriður á málið þegar Geir Þorsteinsson tók við formennsku hjá KSÍ í fyrra. Halldór segir það hafa komið sér verulega á óvart að hugmyndin skyldi ekki eiga hljómgrunn hjá KSÍ á sínum tíma.
,,Mér fannst þetta alveg sjálfsagt enda sá ég þessa styttu aldrei skyggja á einhverja aðra íslenska knattspyrnumenn. Mér fannst þetta eiga við vegna þess að Albert var alger frumherji í boltanum. Hann var sá fyrsti sem fetaði þessa leið í atvinnumennskuna og síðar verður hann svo mikill áhrifavaldur fyrir íslenska knattspyrnu. En það leggst bara til viðbótar. Það vill bara svo frábærlega til að hann gerðist síðan þessi forystumaður sem kom svo mörgu í verk.“
Í nefndinni sitja ásamt Halldóri þeir Jón Gunnlaugsson, Júlíus Hafstein og Ingi Björn sonur Alberts: ,,Það er búið að gera drög að þessu og á næstunni munum við hitta arkitektinn til þess að ákveða staðsetninguna. Helgi Gíslason myndhöggvari mun gera styttuna. Sá hinn sami og hefur gert myndirnar af borgarstjórunum og þess vegna er hann alveg ofboðslega upptekinn manngreyið,“ segir Halldór léttur en bætir við að hann sé afskaplega ánægður með að málið sé komið á rekspöl.
Ítarlega er fjallað um Albert Guðmundsson og atvinnuferil hans í fótboltanum í sunnudagsblaði Morgunblaðsins.