Farþegar á vegum Ferðaskrifstofu Íslands, sem Úrval-Útsýn, Sumarferðir og Plúsferðir heyra undir, þurfa ekki að óttast að komast ekki heim vegna fjárhagsörðugleika ferðaskrifstofunnar.
Fresta þurfi í morgun flugi sem átti að fara frá Íslandi klukkan 07.00 til klukkan 20 og tengist frestunin fjárhagsvandanum, að sögn Þorsteins Guðjónssonar, forstjóra Ferðaskrifstofu Íslands. „Seinkunin fléttast inn í fjárhagserfiðleikana. Þetta er hluti af stærri mynd,“ segir Þorsteinn.
„Þetta fyrirtæki hefur, eins og ábyggilega helmingur íslenskra fyrirtækja, lent í hremmingum vegna þess sem gengið hefur á,“ bætir Þorsteinn við.
Hann segir að búið sé að endurskipuleggja reksturinn. „Það koma fjársterkir aðilar að honum en það er ekki hægt að greina frá því hverjir þeir eru fyrr en eftir helgi.“
Iðnaðarráðuneytið hefur verið látið fylgjast með þróun mála, að sögn Þorsteins. „Það eru eðlileg vinnubrögð vegna þess að við heyrum undir það. Við leggjum inn í ráðuneytið tryggingu sem við kaupum fyrir hlutfall af því sem reiknum með að selja á hverju ári. Þar með er farþegum tryggður flutningur heim ef eitthvað kemur upp á. Tryggingin nær einnig til þeirra sem þegar hafa bókað ferð út en ekki hafið ferðina.“
Um 70 manns starfa hjá Ferðaskrifstofu Íslands, að því er Þorsteinn greinir frá. Allir starfsmennirnir hafa minnkað starfshlutfall sitt um 50 prósent frá því í nóvember. Þorsteinn kveðst ekki gera ráð fyrir því að þurfa að segja starfsmönnum upp fyrst um sinn. „Við þurfum að sjá hvernig árið fer.“