Hellisheiði lokuð vegna slysa við Hveradali

Flughált er á Hellisheiði og í Þrengslum og hafa orðið fimm umferðaróhöpp á skömmum tíma. Hellisheiði er lokuð vegna slysanna. 

Jeppabifreið fór út af veginum við við skíðaskálann í Hveradölum í dag og valt. Einn maður var í bílnum og er hann talinn alvarlega slasaður. Sjúkraflutningamaður sem kom að slysinu þurfti að beita hjartahnoði að sögn sjónarvotta. Maðurinn var fluttur á slysadeild.

Fáum mínútum áður fór önnur jeppabifreið út af veginum á svipuðum stað og valt. Þrír voru fluttir á slysadeild en talið er að meiðsli þeirra séu minniháttar.

Þá fór bíll út af veginum við Kambabrún en ekki er vitað um meiðsli.

Bíll fór út af veginum skammt frá Litlu kaffistofunni. Ökumaður hlaut minniháttar meiðsl en fjarlægja þurfti bílinn af slysstað með kranabíl.

Loks fór jeppi með kerru út af veginum við Lambafell í Þrengslum. Ekki urðu slys á fólki.

Lögreglan á Selfossi segir að snöggkólnað hafi um fjögurleytið. Hitastig hafi fallið úr þremur til fjórum gráðum, skollið á mikil þoka og frosið við vegyfirborðið. Glerhálka hafi myndast á örskotsstundu en væntanlega megi rekja öll slysin til þessara snöggu breytinga.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert