Hesturinn fældist við flugeld

mbl.is/Jim Smart

Kona féll af hestbaki í gær og handleggsbrotnaði. Konan var í útreiðartúr á reiðvegi í Setbergi um miðjan dag þegar einhver sprengdi flugeld í nágrenninu. Hesturinn kastaði konunni af baki og pípa í handlegg hennar hrökk í sundur við fallið. Hestamaður sem kom að kallaði til sjúkrabíl sem flutti konuna á slysadeild. Ekki er vitað hver flugeldamaðurinn er.

Í reglugerð um skotelda segir að almenn notkun skotelda sé leyfð, 28. desember til 6. janúar. Meðferð þeirra er þó alltaf bönnuð frá miðnætti til klukkan 9, að undanskilinni nýársnótt. Þá er óheimilt að breyta á nokkurn hátt skoteldi þannig að hann hljóti aðra eiginleika en framleiðandi hans ætlaðist til. Við meðferð og vörslu skotelda skal ýtrustu varúðar gætt og ætíð farið eftir skráðum leiðbeiningum. Þá er meðferð flugelda og annarra skotelda bönnuð við brennu og í næsta nágrenni við hana. Þar er aðeins leyfilegt að nota stjörnuljós og blys, þó ekki skotblys.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert