Segir utanríkisráðherra vinna gegn ESB umsókn

Ármann Kr. Ólafsson
Ármann Kr. Ólafsson

„Það er rökrétt að draga þá ályktun af ýmsum ummælum Ingibjargar Sólrúnar að formaður Samfylkingarinnar vilji ekki að Sjálfstæðisflokkurinn nái samstöðu á landsfundinum um það hvernig staðið skuli að viðræðum um aðild að Evrópusambandinu, “ skrifar Ármann Kr. Ólafsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins í pistli á heimasíðu sinni. Ármann segir að halda mætti að formaður Samfylkingarinnar væri helsti andstæðingur inngöngu í sambandið.

Í pistlinum segir Ármann Kr. Ólafsson að Ingibjörg Sólrún Gísladóttir hafi vægast sagt átt furðuleg útspil í Evrópusambandsumræðunni eftir að Sjálfstæðisflokkurinn setti af stað Evrópunefnd sína og flýtti landsfundi til 29. janúar nk. Stjórnmálamaður með jafnmikla reynslu og Ingibjörg viti að það sé ekki pólitískum úrlausnarefnum til framdráttar að stilla samstarfsaðilum upp við vegg og sé síst til þess fallið að koma málefnum í jákvæðan farveg.

Merkilegt sé ef Ingibjörg Sólrún vilji ekki að Sjálfstæðisflokkurinn nái samstöðu á landsfundinum ESB en það sé eina hugsanlega leiðin til þess að málið komist á dagskrá við núverandi aðstæður.

„Eftir stendur því spurningin um það hvers vegna formaðurinn gerir allt til þess að standa í vegi fyrir málinu. Hefur Ingibjörg eitthvert annað markmið en það sem fram kemur á yfirborðinu? Ef svo er þá sjá landsmenn allir að erfitt að halda saman ríkisstjórn á slíkum forsendum,“ skrifar Ármann Kr. Ólafsson.

Bloggsíða Ármanns Kr. Ólafssonar

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka