Einar K. Guðfinnsson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, segist ekki hafa nákvæmar upplýsingar um skuldastöðu sjávarútvegsins. Ljóst sé þó að hún sé slæm í ljósi veiks gengis krónunnar. Einar telur að krónan muni styrkjast hratt á næstunni og skuldastaðan þar með lagast.
„Ég tel ekki þjóna miklum tilgangi að vera að álykta mikið um skuldir sjávarútvegsins, eða annarra fyrirtækja, út frá því gengi sem nú er. Skuldastaðan er þó alvarleg, ég geri ekki lítið úr því. Það bendir allt til þess að krónan muni styrkjast mikið á næstu mánuðum. Fyrir því eru augljósar ástæður. Það hefur verið jákvæður vöruskiptajöfnuður síðustu mánuði. Það hefur verið mikið innstreymi af útflutningstekjum og það hefur gert meira en að vega upp kostnað af innflutningi. Þess vegna tel ég að krónan muni styrkjast, og þar með skuldastaðan batna,“ segir Einar.
Miklar skuldir vegna framvirkra samninga
Eins og greint hefur verið frá í Morgunblaðinu skulda sjávarútvegsfyrirtæki í landinu 25 - 30 milljarða króna miðað við núverandi gengi, vegna afleiðu- og gjaldmiðlaskiptasamninga sem fyrirtækin gerðu við gömlu bankanna. Stærstur hluti þessara samninga var við gamla Landsbankann en virði samninga sem tilheyra honum er um 18 milljarðar. Sjávarútvegsfyrirtæki hafa átt í viðræðum við Landsbankann um hvernig sé mögulegt gera upp samninganna. Þau vilja að samningarnir séu gerðir upp á gengi sem er lægra en sem nú er. Gengisvísitalan er nú um 215.
Samningar gerðir upp miðað við lægri gengisvísitölu
Einari finnst koma til álita að gera samninganna miðað við lægri gengisvísitölu en nú er. „Varðandi framvirku samninganna, sem fyrirtæki og lífeyrissjóðirnir gerðu til þess að verjast gengissveiflum, þá liggur fyrir að þessi samningar komust í uppnám við fall bankanna. Vilji sjávarútvegsins hefur verið sá, að gera samninganna upp með einhverjum hætti. Þessi samningar eru í höndum gömlu bankanna.og það hafa staðið yfir viðræður um að nýju bankarnir taki yfir þessa samninga, á verðgildi sem um semst á milli þessara tveggja aðila, sem eru nýju og gömlu bankarnir. Við þessar aðstæður sem nú eru uppi þá er gengið mjög afbrigðilegt og í raun ekki til neitt raunverulegt markaðsverð á krónunni sem hægt er að styðjast við til uppgjörs við þessar aðstæður.“
Aðspurður hvort það sama megi ekki segja um öll lán í erlendri mynt, sem fyrirtæki og einstaklingar hafa tekið, segir Einar stöðuna ekki sambærilega. „Varðandi framvirku samninganna þá er verið að tala um að gera þá upp að fullu. Varðandi húsnæðislán, eða önnur lán í erlendri mynt, þá hafa ekki verið uppi kröfur um að þau séu greidd upp að fullu. Bankarnir hafa einmitt boðið upp á frystingu til þess að fólk þurfi ekki að greiða af lánum sínum við þessar afbrigðilegu aðstæður á gjaldeyrismarkaði sem nú eru uppi.“