Eyjan biður bloggara að sýna ábyrgð

Vefsvæðið Eyjan biður nú lesendur sína að bæta notkun ummælakerfis um fréttir með því að nota alltaf rétt nafn og halda umræðum á svæðinu innan heilbrigðra marka.

„Umræðan má vera gagnrýni, afdráttarlaus og hvöss, en hún þarf að vera efnisleg og ekki verður liðið að settar séu fram rangar staðhæfingar, dylgjur, ærumeiðandi ummæli eða hótanir," er haft eftir Guðmundi Magnússyni, ritstjóra og Jóni Garðari Hreiðarssyni, framkvæmdastjóra, í frétt á vefnum.

Fram kemur, að ummæli við fréttir og bloggfærslur á Eyjunni hafi nokkrum sinnum að undanförnu  brotið gegn almennum siðareglum opinberrar umræðu um þjóðfélagsmál. Þá sé dæmi um hótanir í ummælakerfinu til athugunar hjá lögreglu. Segir að Eyjan telji það ekki vera hlutverk sitt að vernda upplýsingar um fólk, sem noti vefinn til að hafa í frammi alvarlegar hótanir, svo sem líflátshótanir, í garð samborgara sinna.

Þeir segja, að verði ekki hægt að starfrækja ummælakerfið á Eyjunni án þess að það sé misnotað sé óhjákvæmilegt að taka upp nýtt skipulag og gera kröfu um ítarlegar persónuupplýsingar frá öllum, sem leggja orð í belg á vefnum. Eyjan vilji hins vegar halda vettvangi ummælanna opnum án þess að gera slíkar kröfur og í því felist mikið frelsi, sem krefjist ábyrgar þátttöku lesenda.

Eyjan.is

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert