Undirrituð var í gærkvöldi viljayfirlýsing um kaup Iceland Express á Ferðaskrifstofu Íslands. Kaupverð fæst ekki gefið upp að svo stöddu og segir Matthías Imsland, framkvæmdastjóri Iceland Express, svo ekki verða fyrr en gengið hefur verið frá öllum lausum endum.
Hann segir menn þó meta stöðuna þannig að Ferðaskrifstofa Íslands og fyrirtækin sem undir það falla séu sterk vörumerki sem þeir vilji halda á markaði. „Við teljum að það sé gott fyrir markaðinn í heild og eins fyrir okkur, enda eru samlegðaráhrifin mikil.“
Ferðaskrifstofa Íslands hafi eins og fjöldi annarra íslenskra fyrirtækja lent í erfiðri stöðu við hrun bankakerfisins, enda hafi tekjur fyrirtækisins verið í íslenskum krónum á meðan að gjöldin voru í erlendri mynt. „Við höfum fulla trú á fyrirtækinu og komum til með að setja mikinn pening inn í rekstur þessara félaga þannig að framtíð þeirra á að vera sterk,“ segir Matthías og kveður engar breytingar áætlaðar á rekstrinum á næstunni.